Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum

Miðvikudaginn 06. apríl 2005, kl. 13:10:49 (6665)


131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:10]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Hér er bryddað upp á afar mikilvægu og stóru máli og full ástæða er til þess að hæstv. forsætisráðherra kanni vel og gefi sér betri tíma til að fara yfir þá skýrslu sem hér liggur til grundvallar. Það er nefnilega augljóst mál að þar eru vísbendingar um að þrátt fyrir að hér hafi lengi verið við lýði byggðastefna um að fjölga eigi opinberum störfum á landsbyggðinni og auka þar hlut hins opinbera hefur árangurinn verið býsna lítill. Það eru vísbendingar um að hann hafi ekki bara verið lítill, heldur hafi í raun og veru hin opinbera stefna unnið gegn því stefnumiði sem gjarnan hefur verið sett fram í byggðastefnum.

Það segir okkur að ekki er nóg að setja saman fallegar skýrslur eða falleg markmið á blað ef ekki er litið heildstætt á málin. Það blasir við þegar þessi skýrsla er lesin að tekjur ríkisins eru hlutfallslega meiri af landsbyggðinni en þeir fjármunir sem þangað fara. Þetta hefur m.a. þær afleiðingar að höfuðborgarsvæðið hefur vaxið hraðar en ella hefði verið. Um leið og Reykjavík eða höfuðborgin er miðstöð þjónustu og verslunar sogar að sjálfsögðu það svæði að sér fjármagn af landsbyggðinni. (Gripið fram í.)

Ef til staðar væri heildstæð stefna hefðu menn að sjálfsögðu beint þessu opinbera fjármagni meira út til landsbyggðarinnar með fjölgun starfa og flutningi stofnana vegna þess að þá hefði það fjármagn líka farið í gegnum hagkerfi höfuðborgarsvæðisins og dregið mjög úr þessum mismunandi vexti eftir svæðum.

Það sem er athyglisvert við skýrsluna og við höfum því miður fengið allt of lítið af dæmum um er að þarna er verið að beita svokallaðri svæðishagfræði. Það er nútímaleg fræðimennska að skoða þetta þannig vegna þess að eins og við vitum eru hagkerfin orðin meira og minna samliggjandi eftir löndum og það er oft og tíðum meiri samræming innan svæða en jafnvel í heilum löndum. Þess vegna er ástæða til að hvetja (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra til að fara enn betur yfir málið.