Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum

Miðvikudaginn 06. apríl 2005, kl. 13:24:11 (6671)


131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:24]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í skýrslu Vífils Karlssonar er dregið fram hagfræðilíkan þar sem hann spyr: Er landfræðilegt misræmi í öflun og ráðstöfun opinbers fjármagns eftir landshlutum? Í ljós kemur töluvert misræmi á þeim hagfræðilegu forsendum sem fram koma í skýrslunni og því er full ástæða til að skoða málið frekar eins og skýrsluhöfundur reyndar bendir á í niðurstöðum sínum.

Eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra fór yfir áðan er hægt að gera verulegt átak í að færa til opinber störf. Hann hefur sýnt að vilji er allt sem þarf. Þetta er frábært átak hjá honum og hans verður lengi minnst í umræðunni vegna þessa.

En af hverju skyldu þjónustufyrirtæki ríkisins beina starfsemi sinni eða kaupum á þjónustu út á land? Í fyrsta lagi koma þar til byggðalegar forsendur. Í öðru lagi að veita þjónustu í nærumhverfi þeirra sem hana nýta. Í þriðja lagi að nýta staðarþekkingu og í fjórða lagi að nýta það trausta og stöðuga vinnuafl sem til staðar er.

Þau einkafyrirtæki sem hafa fært starfsemi sína eða hluta hennar út á land hafa nefnt það sem aðalatriði að til starfa hefur valist stöðugt, traust og gott vinnuafl. Kostnaður við starfsþjálfun hefur því verið mun minni en ella og gæði vinnunnar þar af leiðandi mun meiri. Til þessara þátta horfa einkafyrirtæki, og því skyldu ríkisfyrirtæki ekki horfa til þeirra líka? Það er tregðulögmál sem illt er að skilja en þeir ríkisforstjórar sem sjá ljósið eiga heiður skilinn.