Kostun dagskrárliða í útvarpi og sjónvarpi

Miðvikudaginn 06. apríl 2005, kl. 14:06:30 (6688)


131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Kostun dagskrárliða í útvarpi og sjónvarpi.

515. mál
[14:06]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir það með hæstv. menntamálaráðherra að ekki er ástæða til að endurskoða þessar reglur fyrr en útvarpsréttarnefnd hefur lokið sinni könnun því að það er í fyrsta sinn sem eitthvert stjórnvald á Íslandi fylgir þessum reglum eftir. Það hefur ósköp einfaldlega aldrei verið gert.

Kostun getur verið ágætt mál á réttum stað og gagnleg við fjármögnun á fjárfrekum dagskrárliðum eða dagskrárgerð, t.d. við innlenda stórviðburði eða erlenda, enda sé augljóst hvað er á ferðinni. Gallarnir koma ósköp einfaldlega fram í sjálfum lögunum sem löggjafinn hefur samið af góðu viti. Þeir eru að hún á ekki að hafa áhrif á innihald eða efnistök við gerð dagskrárliðarins. Hún á ekki að raska ábyrgð á ritstjórnarlegu sjálfstæði útvarpsstöðvar, hún má ekki fela í sér hvatningu í sjálfu dagskrárefninu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostenda eða annars aðila, eins og stendur í lögunum.

Það er þetta hins vegar sem hefur verið brotið. Það hefur verið farið á svig við þessi ákvæði og þau hafa verið brotin augljóslega og opinberlega og ég fagna svörum menntamálaráðherra (Forseti hringir.) um dirfsku hinnar nýju útvarpsréttarnefndar við það að gera það sem (Forseti hringir.) hún hefur átt að gera í marga tugi ára.