Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 11:41:19 (6771)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:41]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, enda veit ég að hann þekkir vel til þess að hluti af vanda Lífeyrissjóðs bænda er að sjálfsögðu fólgin í þessari fortíð eins og reyndar annarra lífeyrissjóða. Að þessu leyti má segja að fyrirkomulagið í Lífeyrissjóði bænda, ef ég man það rétt, hafi ekki verið svo frábrugðið því sem var á meðan menn í öðrum sjóðum greiddu t.d. eingöngu af dagvinnulaunum en ekki af heildarlaunum. Það var ákveðið þak á greiðslunum og menn mynduðu ekki lífeyrisréttindi eða greiddu inn á réttindin í samræmi við heildarlaun sín og heildartekjur. Gott ef sjómenn greiddu ekki á einhverjum tíma bara af tryggingunni. (Gripið fram í: Bara fyrst af hálfri.) Já, eitthvað svoleiðis, bara fyrst af hálfri tryggingunni.

Þetta á sér rætur í því að lífeyrissjóðakerfið fór af stað í slíkum áföngum og það var ekki fyrr en árið 1996 eða 1998 sem við náðum utan um dæmið í heild sinni með endurskoðun löggjafar um lífeyrissjóði og það var virkilega fest í sessi að allir færu, þar með talið sjálfstætt starfandi atvinnurekendur, að greiða í lífeyrissjóði og af öllum launum sínum.

Auðvitað er vandinn líka fólginn í hinum sérstöku aðstæðum í stéttinni, aldurssamsetningunni og slíku. Ég kom nú sæmilega rækilega inn á það, ég held ég þurfi ekki að endurtaka það, og lagði mikla áherslu á að vænlegasta lausnin gagnvart þeim vanda sé að breyta aldurssamsetningunni. Það er að leyfa landbúnaðinum að blómgast, að reyna að hjálpa til við að þar verði endurnýjun og kynslóðaskipti þannig að þessi óhagstæðu hlutföll lagist.

Að lokum varðandi ræðu hv. þm. Katrínar Ásgrímsdóttur, sem ég gagnrýndi, þá var alveg skýrt hvað ég var að gagnrýna. Ég var að gagnrýna ómálefnaleg ummæli hv. þingmanns í garð okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og annað ekki í ræðu hennar. Að öðru leyti var hún að lýsa skoðunum sínum og hún stendur fyrir þeim. Ég tel að vísu að menn hafi í raun oftúlkað þau viðhorf eða þann vilja sem uppi er í Bændasamtökunum þegar menn segja að það sé afstaða samtakana að leggja eigi Lánasjóð landbúnaðarins niður. Ég er ekki sammála þeirri túlkun. Ég tel að afstaða Bændasamtakanna sé sú að þeir vilji leggja búnaðarmálasjóðsgjöldin af (Forseti hringir.) en hafi síðan ekki tekið afstöðu til þess hvað þeir vilja gera með framhaldið.