Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 11:45:16 (6773)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:45]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sæmilega upplýstur um atvinnuháttabreytinguna. Ég hef nefnilega búið á Íslandi að frátöldu einu og hálfu til tveimur árum þau 49 ár sem ég hef lifað og tel mig hafa fylgst sæmilega með, þannig að það þarf ekki að halda yfir mér fræðsluerindi um það. Ég tel mig þekkja ágætlega það samfélag sem ég lifi og hrærist í. Við getum hins vegar verið ósammála um einhverja hluti í þessum efnum en við skulum ekki tala hvert við annað eins og sum okkar hafi gengið um með bundið fyrir augu og með tappa í eyrunum frá fæðingu. Það er ekki svo. Ætli ég hafi ekki eitthvað glímt við þessa hluti eins og hv. þingmaður sem líka hefur þurft að vera í forsvari fyrir bændur eða landbúnaðinn á ákveðnum sviðum.

Það er auðvitað alveg rétt og við þurfum ekki að fara betur yfir það að ákveðnar veilur í kerfinu sem enn er við að glíma eiga sér rót í upphafinu. Ég held að við eigum frekar að segja: Fögnum því sem þó hefur áunnist og lofum guð fyrir að við lentum inn á það spor um 1970 að byrja að byggja upp söfnunarsjóði með samábyrgð. Það var gæfuspor fyrir Ísland og ástæða þess að víða um lönd er horft til Íslands og sagt: Sjáið þið hvað þeir eru að gera, hvernig þeir fara að þessu. Þeir koma til með að glíma við breytta aldurssamsetningu í samfélaginu með allt öðrum og árangursríkari hætti en við stöndum frammi fyrir hér í Þýskalandi, Bretlandi, Noregi eða hvar það nú er þar sem menn annaðhvort alls ekki eða miklu seinna völdu þessa gæfulegu leið. Einnig hjálpar það okkur að við erum enn tiltölulega ung þjóð.

Ég skrifa ekki upp á að áframhald þurfi að vera á fækkun í bændastétt eða hjá þeim sem greiða iðgjöld í Lífeyrissjóð bænda þó svo miklar breytingar eigi sér nú stað. Það er ekkert sem segir að byggð í sveitum landsins og ýmiss konar búskapartengd starfsemi, sem ætti að mínu mati að geta gefið mönnum aðild að Lífeyrissjóði bænda og greiðslum þar inn, geti ekki blómgast og það er hún auðvitað að gera á mörgum sviðum eins og í ferðaþjónustu, í sveitum og víðar. Vandinn er sá að samdrátturinn í hinni hefðbundnu starfsemi gerir meira en vega það upp enn sem komið er en breytist vonandi.

Varðandi einkahlutafélögin sé ég (Forseti hringir.) ekki betur en það sé einmitt verið að bregðast við slíkri mögulegri breytingu (Forseti hringir.) í 1. gr. frumvarpsins og opna á að deildaskipta réttindunum þannig að það er vel.