Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 12:05:37 (6776)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:05]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að nú hafi verið farið algerlega með staðreyndir úr ræðustól, enda væri rétt að það yrði skoðað og ég treysti auðvitað mönnum til þess í nefndinni.

Það er hins vegar rétt að draga eitt atriði inn í umræðuna úr því að menn eru að tala um hvernig horfa megi til þess að menn njóti meira af þeim lífeyristekjum sem þeir fá. Ef þeir fjármunir sem koma úr Lánasjóði bænda yrðu lagðir inn á reikning hvers og eins fengju menn fjármagnstekjur af þeim innstæðum og þegar menn fá fjármagnstekjur skerða þær helmingi minna en lífeyristekjur. Fjármagnstekjur skerðast með 22,5% reglu því að fyrst er deilt í þær með tveimur áður en þær valda skerðingu á bótum úr almannatryggingakerfinu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að rétt er að skoða þessi mál mjög gaumgæfilega. Ef við höfum raunverulegan vilja til að takast á við það að laga stöðu bænda og framtíðarafkomu þeirra varðandi lífeyri þá skulum við skoða reglur ríkisins eins og þær eru nákvæmlega og hvað kemur bændum best og horfa til þess eða, sem væri enn þá betra, að menn væru tilbúnir að breyta skerðingarreglunum varðandi samsettar lágmarksbætur og menn fengju að halda óskertum bótum almannatrygginga en þyrftu auðvitað að borga skatta af þeim eftir sem áður, en beita ekki skerðingarreglunum fyrst og taka síðan skattana.