Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 12:23:53 (6782)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:23]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég get sannarlega tekið undir orð hv. þingmanns. Lífeyrissjóðskerfið og þetta kerfi sem heldur utan um samsettar bætur almannatrygginga er ansi flókið. Um fjórþættar greiðslur er að ræða og hef ég svona af minni reynslu eftir viðtöl við eldri borgara komist að því að fæstir þeirra skilja kerfið og fæstir þeirra gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að fá greitt.

Ég tek undir að það þarf að skoða alvarlega hvort við getum einfaldað greiðslur samsettra bóta almannatrygginga og lög þar að lútandi þannig að skiljist, svo ekki sé talað um leikmenn á löggjafarsamkundunni sjálfri.

Ég minni hv. þingmann aftur á þá athyglisverðu ræðu sem hann flutti hér áðan um þá milljarða sem eru fljótandi í efnahagslífinu og eru í raun í eigu bænda. Ég vitna þá til Hótel Sögu, KEA og Mjólkursamsölunnar og eflaust eru það fleiri fyrirtæki og stofnanir sem ekki er stjórnað af bændum sjálfum heldur einstaklingum sem taka þátt í markaðnum. Ég spyr því hv. þingmann aftur hvernig hann sjái löggjafarsamkunduna eða framkvæmdarvaldið koma inn í þessa umræðu til að þessu fé verði skilað til réttra eigenda.