Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 12:27:02 (6784)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:27]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur um margt verið athyglisverð umræða sem hér hefur farið fram og kannski einkanlega sú sem laut að því hvernig beri að ráðstafa fé sem enginn á. Vissulega er rétt að bændur eiga víða miklar eignir sem þeir ekki hafa stjórn á og ef ekki kemur til sérstök aðgerð löggjafarvaldsins þá munu þeir sennilega seint og illa nokkurn tíma ná stjórn á þeim eignum. Þetta er því umræða sem er vel þess virði að taka.

Hins vegar verða menn að hafa í huga í þessu samhengi að ríkisvaldið hefur nú þegar teygt sig inn í svipaða eða sambærilega sjóði. Má þar nefna Iðnlánasjóð og Fiskveiðasjóð sem á sínum tíma runnu mestan part inn í ríkissjóð en ekki til þeirra sem greiddu eða eiginlega bjuggu þessa sjóði til. Við höfum því í fortíðinni fordæmi þess efnis að ríkið hefur tekið til sín slíka sjóði. En hvort það gilda önnur sjónarmið um bændur í þessu tilviki en gerðu á þessum tíma má vel vera og vel má vera að auðveldara sé að sýna fram á eignarrétt bændanna en var í þessu tilviki. Án þess að ég ætli að fara hér út í mikla umræðu um það þá lít ég sjálfur svo á að hið sama eigi nú ekki við um sparisjóðina. Þar hefur okkur hv. þm. Pétur Blöndal greint talsvert á en ég ætla ekki að fara að endurtaka þá umræðu hérna.

Það er hins vegar mjög athyglisvert sjónarmið í ljósi þeirrar stöðu sem Lífeyrissjóður bænda er í að menn skoði og hugleiði hvort rétt sé að styrkja sjóðinn á þennan hátt.

Ég held heldur ekki að í þessari umræðu sé rétt að fara yfir hvers vegna staða bænda er eins og raun ber vitni enda verður það ekki gert hér. Mér þykir hins vegar það frumvarp sem hér liggur fyrir vera einhvers konar tilraun til þess að koma til móts við hina erfiðu stöðu Lífeyrissjóðs bænda og er það í sjálfu sér áhugavert markmið og æskilegt. En ég velti því fyrir mér að þegar maður les þetta yfir og fer yfir þetta þá er dálítið erfitt að átta sig á því hver hinn raunverulegi vandi Lífeyrissjóðs bænda sé. Það kemur ekki hér fram. Það er erfitt að átta sig á því um hvaða fjárhæðir hér er verið að ræða.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson fór ágætlega yfir meðalfjárhæðirnar sem koma út úr þessum sjóði. Það sér hver maður að þær eru ekki háar, sem væntanlega endurspeglar stöðu sjóðsins. En sú hugmynd sem hér er lagt upp með virðist mér, eins og ég fæ skilið hana, sú að opna á heimild sjóðstjórnar til að breyta samþykktum að því er varðar iðgjöld greidd af viðmiðunarlaunum. Mér virðist sem hér eigi að einhverju leyti að opna víxil á ríkissjóð, þ.e. ef stjórn sjóðsins ákveður hækkun á iðgjaldi þá hækkar framlag ríkisins. Ég er dálítið hugsi yfir því hvort hér sé eðlilega að verki staðið, að við veitum stjórn Lífeyrissjóðs bænda opinn víxil, heimild til að taka ákvörðun og ávísa nánast á ríkissjóð. (Landbrh.: Það er búvörusamningurinn.) Það er í gildi búvörusamningur að vísu. En þetta er umhugsunarefni, hvort þetta sé skynsamlegasta leiðin.

Spurningin sem ég vil varpa upp, sem við munum án efa skoða í efnahags- og viðskiptanefnd, er hvort ekki sé æskilegt að leggja hreint mótframlag úr ríkissjóði í sjóðinn til að styrkja hann. Væri það ekki skynsamlegri leið, hreinni og ærlegri? Ég held að ég geti talað fyrir munn allra, a.m.k. innan Samfylkingar, hvað það varðar að menn eru tilbúnir að styrkja þennan sjóð og telja það mjög mikilvægt. Hins vegar þarf að skoða vandlega hvaða leið við förum í þessum efnum. Eins og þetta slær mig virðist ætlunin að reyna að stoppa í gatið, að aðgerðin sé til þess. Reyndar kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að frumvarpið væri lagt fram samkvæmt beiðni stjórnar sjóðsins. Umræðan um þessar hugmyndir hefur því kannski ekki farið fram mikið víðar en þar. En ég held að við þurfum að skoða málið vandlega í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar á ég sæti og fæ tækifæri til að skoða hvort aðrar leiðir kunni að vera betri og skynsamlegri.

Ég held að hv. þingmenn geri ekki ágreining um þau markmið sem hér eru uppi. Hins vegar kann að vera rétt að skoða aðrar leiðir, einkum út frá því sjónarmiði hvort hér sé að einhverju leyti opnað á að aðrir en þingið taki ákvörðun um framlag ríkisins í sjóðinn.

Ég ætla ekki að hafa, virðulegi forseti, fleiri orð um þetta mál að þessu sinni. Við munum fara vel og vandlega yfir þetta í efnahags- og viðskiptanefnd og skoða með mjög jákvæðu hugarfari. Það er ekki nokkur spurning. Við reynum þá, ef ástæða þykir til, að skoða hvort aðrar leiðir kunna að vera skynsamlegri en ég hef trú á að þingið muni taka mjög jákvætt á þessu.