Útflutningur hrossa

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 17:33:54 (6856)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[17:33]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það kann rétt að vera. Auðvitað á ekki að setja alla hluti í lög. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni. Hér er verið að fella úr gildi ákveðinn þátt í lögum. Hv. þingmaður kallar þetta hrossakaup og skilur þetta nú lítið, en þetta snýr, eins og hv. þingmaður sagði, dálítið að dýravernd eins og komið hefur fram. Einhvern tímann voru hross aðallega flutt með skipum. Það er búið að flytja héðan út hross í hundruð ára, það var ekki alltaf einfaldur hlutur. Þessi lög hafa verið markvisst í endurskoðun. Nú fara allir hestar út með flugi eða oftast og að mestu í dag. Þarna er verið að skapa jafnræði. Hvað önnur dýr varðar verða þau einnig að uppfylla ákveðna skilgreiningu, a.m.k. þess lands sem er verið að flytja þau til.

Hins vegar hvað hestana varðar er íslenski hesturinn, sem ég veit að hv. þingmaður veit, mikið dýrmæti og er ræktaður í tugum þjóðlanda. Íslenskir hestamenn setja sér miklar gæðakröfur og hafa verið að vinna í því. Þeim finnst líka mikilvægt að þeir hestar sem fara úr landi skaði ekki ímynd greinarinnar eða landsins sem þeir koma frá, þannig að um þetta gilda núorðið einföld lög. En eins og ég sagði í ræðu minni er verið að einfalda hlutina og fella úr gildi lög sem ekki eiga við lengur.