Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 14:24:32 (6885)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[14:24]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þessi nýja skýrsla vekur strax spurningu um það hvað eiginlega hafi verið á ferðinni í fyrra, fyrir tæpu ári, frá því í apríllok og fram í júlí, í nærfellt 100 daga, þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra og meðstjórnendur hans lögðu allt undir, lýðræðislegar grundvallarreglur, trúverðugleik flokka sinna og sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins. Ekkert var þeim of heilagt við að knýja í gegn lög til höfuðs fjölmiðlafyrirtæki sem herrunum háu var þá í nöp við. Einskis var svifist og hnefinn var reiddur á loft yfir forsvarsmönnum og fjölmiðlum, blaðamönnum og öðrum starfsmönnum, yfir fræðimönnum sem um þetta fjölluðu, yfir almenningsálitinu, yfir þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem voru látnir standa vaktina nótt eftir nótt. Hnefinn var líka reiddur yfir þeim stjórnarþingmönnum sem viðruðu efasemdir og er rétt að nefna einmitt núna í heiðursskyni tvo hv. þingmenn sem ekki létu berja sig til hlýðni og uppgjafar, þau Kristin H. Gunnarsson og Jónínu Bjartmarz. Að lokum reiddu ráðherrarnir hnefann á loft yfir virðingu forseta Íslands. Allt var lagt undir. Það var þá fyrst þegar þeir sáu fram á herfilegan ósigur í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu, þá fyrst létu þeir undan síga. Það var þannig þjóðin sjálf sem hratt fjölmiðlalögum ríkisstjórnarinnar frá í fyrra.

Síðan var skynseminni loksins hleypt að og skipuð ný nefnd með fulltrúum allra þingflokka og nú erum við að ræða — hvað? Nokkurn veginn samhljóða niðurstöður um hin illskeyttu deilumál. Hvað vekur þar öðru fremur athygli? Auðvitað það að nú eru meira og minna gufaðar upp þær tillögur sem fyrir aðeins tæpu ári settu landið á annan endann. Þessu fagna allir. Nýja skýrslan er vel unnið plagg og niðurstöður hennar bera í aðalatriðum með sér að þar hafa menn gengið til verka æsingarlaust með landsins gagn og nauðsynjar fyrir augum. Hvílíkur munur á vinnubrögðunum. Hvílíkur munur á niðurstöðunum.

Batnandi mönnum er best að lifa, það vildi maður geta sagt hér í dag heilu hjarta. Þess vegna er einmitt svo dapurlegt að frumvarp sem hér á að ræða á eftir um mikilsverðasta fjölmiðil landsins, Ríkisútvarpið, skuli vera unnið með gamla jarðýtulaginu og bera þess öll merki. Enginn veit enn þá hver samdi þetta frumvarp um Ríkisútvarpið en það er hins vegar ljóst hver hefur ekki komið nálægt frumvarpinu. Það var ekki samráðsnefnd þingflokka, það voru ekki starfsmenn á Ríkisútvarpinu, ekki einu sinni útvarpsstjórinn, ekki aðrir fjölmiðlamenn eða áhugamenn, ekki fræðimenn og ekki sá almenningur sem er þó sjálfur eigandi Ríkisútvarpsins.

Í skipunarbréfi nefndarinnar sem við erum hér að ræða stóð að hún ætti ekki að gera tillögur um Ríkisútvarpið. Hún átti að móta tillögur um framtíð fjölmiðla á Íslandi án þess að tala um Ríkisútvarpið nema þá í framhjáhlaupi. Það er nefndinni til hróss að hún virti þetta valdboð ráðherrans mátulega, ein af megintillögum skýrslunnar er að styrkja Ríkisútvarpið sem almannaútvarp. Það að mega ekki ræða um RÚV nema í einhvers konar felum dregur því miður úr gildi þessarar skýrslu, eins og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna skýra í sérstakri bókun sem við samfylkingarmenn tökum undir.

Forseti. Það er ánægjulegt að nefndin skuli hafa sameinast um helstu áherslur okkar í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni allri. Auk Ríkisútvarpsins eru þetta tillögur okkar um fullt gagnsæi í eignarhaldi og rekstri fjölmiðlafyrirtækja og um ráðstafanir til að tryggja sjálfstæði ritstjórnar. Þetta þrennt er mikilsvert og fer að okkar viti langleiðina gegn þeim óæskilegu áhrifum sem aukin samþjöppun kann að leiða til.

Við tökum einnig eindregið undir tillöguna um flutningsrétt og flutningsskyldu í samskiptum dreifiveitna við fjölmiðla eða efnisframleiðendur.

Forseti. Í þeim kafla skýrslunnar sem lýtur að eignarhaldi er auðvitað allt annað á ferð en í fyrra. Hér er ekki ráðist á eitt ákveðið fyrirtæki, fallið frá hugmyndum um að banna svokallaða krossmiðlun og alveg horfnar takmarkanir við eignarhlut fyrirtækja í markaðsráðandi stöðu. Nefndin á sannarlega hrós skilið fyrir að hafa kastað þessu góssi í sjóinn.

Í eignarhaldskaflanum felst þó að réttur manna til að eiga fjölmiðil skuli skertur og raunar er hér, öfugt við frumvarpið í fyrra, gert ráð fyrir að eitt skuli ganga yfir ljósvakamiðla og prentmiðla. Slíkar takmarkanir varða ýmis mannréttindi sem tryggð eru í stjórnarskrá, tjáningarfrelsi, prentfrelsi, atvinnufrelsi og eignarrétt. Að auki verða menn að muna að fjölmiðlarnir eru fjórða valdið. Þess vegna verða gild rök að liggja að baki skrefum í þessa átt umfram almennar samkeppnisreglur. Það verður að segja eins og er að slík rök er því miður ekki að finna í niðurstöðum nefndarinnar.

Það þarf varla að taka fram að þessar hugmyndir í skýrslunni eru ekki ættaðar frá okkur í Samfylkingunni. Þær eru hluti af málamiðlun meðal nefndarmanna og í raun kannski það eina sem eftir stendur af frumvarpi stjórnarflokkanna frá í fyrra. Við höfum lagst gegn reglum af þessu tagi. Við teljum að svona reglur komi því aðeins til greina að markmiðum um fjölbreytni og samkeppni verði ekki náð með öðrum hætti. Við sögðum þetta í fyrra og við erum sömu skoðunar nú. Raunar benda nefndarmenn sjálfir á að svokölluð „hæfileg mörk“ séu í þessu sambandi mikið álitamál. Hér þurfi m.a. að passa að gera ekki fyrirtækjum erfitt fyrir að fjármagna sig, segir í nefndarálitinu, og við íslenskar aðstæður er það hárrétt.

Í sáttaskyni er sjálfsagt mál að skoða enn og aftur svona ráðstafanir og velta fyrir sér einstökum tölum í því sambandi. Þá er rétt að benda strax á að þau mörk sem nefnd eru í skýrslunni um 25% eignaraðild og 33% markaðshlutdeild virðast setja þremur starfandi fjölmiðlafyrirtækjum steininn fyrir dyrnar án augljósrar ástæðu, án neyðar eða vár.

Hlálegt er að miðað við þessi mörk telst arfur Valtýs Stefánssonar ritstjóra og dætra hans, Helgu og Huldu, í Morgunblaðinu vera sérstök samþjöppun auðs sem stefni fjölbreytni og fjölræði í voða. Það er í fyrsta sinn í gjörvallri fjölmiðlaumræðu íslenskri sem þessi tilteknu hlutabréf eru talin sérlega hættuleg, og væntanlega er þetta hortittur í þessum texta. En hann sýnir vel hvað öll eignarhaldsákvæði af þessu tagi eru varasöm og hvað það er brýnt í þessum málum að menn stilli í hóf stjórnlyndi sínu og forsjárhyggju.

Forseti. Við samfylkingarmenn teljum að hér hafi í aðalatriðum verið vel að verki staðið. Þessi skýrsla er þó ekki lagafrumvarp. Það þarf að fara vel yfir niðurstöður nefndarinnar, einkum um eignarhaldið, og skynsamlegast er að komast af án slíkra takmarkana umfram samkeppnislög. Við lýsum okkur hins vegar reiðubúin að ganga til samstarfs um löggjöf á fjölmiðlasviði á grundvelli þessarar skýrslu. Við teljum eðlilegt að nú fari fram umræða í öllu samfélaginu og að löggjöfin verði undirbúin í nefnd með þátttöku þingflokka og einnig blaðamanna og annarra starfsmanna á fjölmiðlum, fræðimanna og helstu hagsmunaaðila. Við teljum nauðsynlegt að málefni Ríkisútvarpsins verði samtímis tekin svipuðum tökum og við teljum raunar að málefni RÚV séu nú prófsteinn á það hvort vilji til sátta er raunverulegur af hálfu ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta sem eiga sér þá sögu í þessum efnum að öllum er í fersku minni.