Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 14:55:11 (6889)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[14:55]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns um skýrslu fjölmiðlanefndarinnar segja að mér þykir nefndin skila af sér afskaplega vönduðu verki með þessari skýrslu. Fyrir það ber að þakka sérstaklega. Tillögur nefndarinnar eru mjög vel undirbyggðar og rökstuddar. Það er jafnframt ljóst að mikið hefur verið lagt upp úr samráði við hagsmunaaðila og upplýsingaöflun og þetta skapar skýrslunni alveg sérstaklega traustan grunn.

Skýrslan er í heild sinni stórfróðleg lesning og veitir mjög mikilvæga innsýn inn í þá þróun sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum, bæði hér á landi og annars staðar, á undanförnum árum. Það er ljóst að tæknin leikur æ stærra hlutverk á fjölmiðlamarkaði og þeir möguleikar sem ný tækni opnar fyrir í miðlun upplýsinga og fyrir aðgang í neytendaþjónustu fjölmiðlafyrirtækja eru að gjörbreyta markaðnum. En þótt tæknin hafi fleytt okkur hratt áfram á skömmum tíma erum við í engum skilningi komin á endastöð, og við erum ekki að nálgast neina endastöð í þeim efnum. Ef eitthvað er sýnist mér við vera rétt að hefja mikið breytingaskeið sem muni hafa mikil áhrif á þróun fjölmiðlamarkaðarins í framtíðinni. Umfjöllun um þessi efni er því afar kærkomin í þeirri skýrslu sem við erum að fjalla um hér.

Þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum fjölmiðlamarkaði á undanförnum árum eru þegar að er gáð í raun ekki annað en spegilmynd þess sem víða hefur verið að gerast annars staðar, samþætting miðla, innleiðing nýrrar tækni, samþjöppun á eignarhaldi. Allt þekkist þetta í nágrannalöndum okkar. Í öðrum löndum hafa þessir þættir orðið tilefni mikillar umræðu og víðast hvar lagasetningar sem ætlað er að tryggja fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaðnum.

Fyrir umræðuna hér er þessi skýrsla afar mikilvægur grunnur en þó verður að segjast að skýrslan er miklu meira en upplýsinga- og umræðuskjal. Í henni er að finna vel ígrundaðar tillögur um það hvernig beri að bregðast við í því umhverfi sem við nú lifum í. Það er óhætt að segja að það séu merkileg tímamót að tekist hafi þverpólitísk sátt um þær megináherslur sem leggja eigi til grundvallar þegar reglur verða mótaðar um þetta efni, sérstaklega þegar haft er í huga hve mjög var deilt um málið í fyrra. Það er ekki annað hægt en að fagna því að þær öldur hafi nú lægt.

Í sjálfu sér er auðvelt að verða sammála þeim þremur meginmarkmiðum varðandi framtíð fjölmiðlunar sem nefndarmenn hafa lagt tillögum sínum til grundvallar, þ.e. fjölbreytni í fjölmiðlun, góðu vali neytenda og öflugri upplýsingagjöf og gagnsæi. Þessu er öllu auðvelt að verða sammála. Hinn pólitíski ágreiningur hefur hins vegar staðið um leiðir að þessum markmiðum. Þær tillögur sem nefndin teflir fram og fela í sér fjölþættar aðgerðir hljóta að teljast fela í sér ákveðna málamiðlun. Þess er því ekki að vænta að umræðu um þær leiðir sem til greina koma sé lokið þrátt fyrir þessa niðurstöðu. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir því að hin pólitíska sátt um málið byggi á því svigrúmi sem ólík sjónarmið hafa fengið hvert fyrir sig í heildartillögu nefndarinnar. Það verður einmitt að teljast einn meginstyrkur skýrslunnar að í henni eru gerðar tillögur að heildstæðum ramma um íslenska fjölmiðlaumhverfið. Meðal þess sem stendur upp úr að mínu áliti er sú niðurstaða nefndarinnar að nauðsynlegt sé að setja eignarhaldi á fjölmiðlum vissar skorður.

Hér á landi hafa gilt afar frjálslegar reglur. Afskipti hins opinbera að uppbyggingu markaðarins hafa verið takmörkuð og heilt yfir minni en víða annars staðar. Það verður að teljast nokkuð athyglisverð þróun að nú, þegar liðin eru rétt um 20 ár frá því að einkaleyfi Ríkisútvarpsins til útvarps var afnumið, skuli vera komnar fram tillögur um að setja eignarhaldi fjölmiðlafyrirtækja tilteknar skorður. Þó að tillögurnar taki yfir fjölmiðlamarkaðinn í heild sinni og þeim sé eingöngu beint að þeim fjölmiðlum sem náð hafa ákveðinni útbreiðslu eða hlutdeild á markaði eru það engu að síður afar merkileg tímamót í sögu frjálsu ljósvakamiðlanna að hugmyndir um reglur af þessu tagi séu í mótun.

Það er ánægjulegt að svo virðist sem hinir frjálsu miðlar taki tillögunum af miklum skilningi. Umræða um stöðu frjálsu fjölmiðlanna verður hins vegar ekki tekin án þess að um leið sé horft á hlut ríkisins á fjölmiðlamarkaði. Það var þess vegna mjög farsælt að hlutur ríkisins væri tekinn með í umfjöllun í þessari skýrslu en þeim mun stærri hlut og þeim mun meira hlutverk sem ríkið ætlar sér á þeim markaði sem hér er rætt um, þeim mun minni verður skilningur frjálsu miðlanna á þörfinni fyrir sérstakar reglur um þeirra starfsemi. Ríkisútvarpið er ekkert eyland í þessari umræðu og það er mikilvægt að það er komið fram frumvarp um Ríkisútvarpið sem tryggir að hægt verði að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins samhliða þörfinni fyrir lagasetningu um framtíðaruppbyggingu fjölmiðlamarkaðarins í heild sinni.

Samþjöppun eignarhalds og myndun samsteypna, þ.e. þessi tilhneiging fjölmiðlafyrirtækjanna til að fara í dreifiveiturnar, getur leitt af sér vissar hættur sem m.a. er fjallað um á bls. 190 í skýrslunni, val neytenda geti takmarkast, aðgangsþröskuldur hækki o.s.frv. Við þessu er brugðist með ákveðnum tillögum í skýrslunni og ég verð að segja fyrir mitt leyti — og ég tek undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni — að það er einn áhugaverðasti kaflinn í skýrslunni sem fjallar um þessa þætti. Það innlegg í umræðu um framtíð fjölmiðlanna er fyrir mína parta skemmtilegasta og merkilegasta innleggið sem þessi nýja skýrsla færir okkur. (Forseti hringir.) Ég ætla að ljúka máli mínu á því að þakka skýrsluhöfundum sérstaklega fyrir góða skýrslu.