Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 15:12:54 (6892)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:12]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil líkt og aðrir byrja á því að þakka nefndarmönnum í nefnd hæstv. menntamálaráðherra um fjölmiðla fyrir vel unnin störf. Hér hefur verið rifjað upp að fyrir réttu ári blossuðu upp miklar deilur í þinginu um frumvarp sem ríkisstjórnin hafði þá lagt fram um eignarhald á fjölmiðlum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði síður en svo lagst gegn slíkri rammalöggjöf og reyndar haft forgöngu um að hafist yrði handa um að afla gagna og vinna málinu brautargengi. Þetta hefur verið rifjað hér upp við umræðuna og ætla ég ekki að fara nánar út í þá sálma.

Ríkisstjórnin bar hins vegar ekki gæfu til að halda þannig á málinu að sátt yrði um það. Allir vita hvernig fór. Það var einkum þrennt sem stóð í mönnum, þrennt sem stóð í þinginu. Í fyrsta lagi óvissa um stöðu Ríkisútvarpsins, og það er rétt að leggja áherslu á að þeirri óvissu hefur ekki verið létt. Ríkisstjórnin hefur að vísu kynnt sínar hugmyndir um hvernig málefnum Ríkisútvarpsins skuli skipað. Ég held að það verði hins vegar að segja eins og það er að um það frumvarp getur ekki orðið sátt, það er alveg ljóst, og ríkisstjórnin hefði getað stytt sér leiðina með því að fara að vilja stjórnarandstöðunnar og óskum hennar um að fela fjölmiðlanefndinni að fjalla jafnframt um málefni Ríkisútvarpsins og gera tillögur um hugsanlegar lagabreytingar varðandi stöðu þess.

Í öðru lagi var það vinnulagið sem stóð í mönnum. Einnig þá hafði verið skipuð fjölmiðlanefnd eins og hér hefur verið rifjað upp. Hún setti fram mismunandi valkosti og sá fyrsti sem hún tefldi fram var að Ríkisútvarpið yrði stórlega eflt. Þá var hugsunin sú að Ríkisútvarpið yrði kjölfesta á fjölmiðlamarkaði og nauðsynlegt mótvægi við aðra fjölmiðla á þessum markaði. Eins og við vitum var allt skilið eftir í óvissu varðandi Ríkisútvarpið.

Í þriðja lagi voru það síðan sjálfar tillögurnar sem deilt var um. Þannig mátti dagblað ekki eiga ljósvakamiðil. Varðandi eignarhaldið var einblínt á eigandann en ekki fjölmiðilinn. Það var spurt: Hver er eigandinn? Er hann markaðsráðandi í efnahagslífinu? Ef svo væri, þá skyldi honum settur stóllinn fyrir dyrnar. Nú er málið nálgast úr annarri átt og spurt um fjölmiðilinn. Er hann markaðsráðandi? Litið er til útbreiðslu hans og það látið ráða þeim skilyrðum sem síðan eru sett um eignarhald. Þetta er gerólík nálgun og að mínum dómi, og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, miklu skynsamlegri.

Nefndin skilar af sér tillögum í sjö liðum eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Ég ætla að staðnæmast við tvo fyrstu liðina.

Í fyrsta lagi segir að Ríkisútvarpið verði áfram öflugt almannaþjónustuútvarp með áherslu á sérstöðu þess og skyldur sem fjölmiðils í eigu allra landsmanna. Undir þetta tökum við heils hugar. Það er ekki aðeins svo að Ríkisútvarpið sé mikilvæg kjölfesta í fjölmiðlun á Íslandi. Það er öryggistæki. Það er menningartæki. Það er ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar og ber að efla sem slíkt.

Síðan er hitt, að tryggja fjölbreytni á markaði og koma í veg fyrir að hér myndist einokunarfyrirtæki sem standi utan almannaviljans. Það gæti hæglega gerst ef Ríkisútvarpið yrði veikt.

Þetta tryggjum við ekki aðeins með því að horfa á eignarhlutinn. Eignaraðild að fjölmiðlum skiptir verulegu máli. Aðilar sem sterkir eru í efnahagslífinu eða á markaði geta einnig haft áhrif á annan hátt, í gegnum auglýsingar. Jafnvel þótt þeir eigi ekki neinn hlut í fyrirtækinu geta þeir, og gætu ef vilji væri til þess, stýrt fjölmiðlunum með því að stýra auglýsingum. Þar er því komin önnur ástæða fyrir því að styrkja verulega Ríkisútvarpið. Það nægir ekki að horfa til lagaskilmála varðandi eignarhaldið.

Í öðru lagi segir að settar verði reglur sem tryggi gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum. Þetta er mjög mikilvægt. Við höfum líka lagt áherslu á að gagnsæi í rekstri fjölmiðlanna skipti einnig máli. Þar erum við komin að einu helsta gagnrýniefni varðandi frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið. Þar er verið að loka öllu. Það er verið að færa starfsemina bak við lokuð tjöld. (Forseti hringir.) Þetta er gagnrýni sem ég mun gera nánar grein fyrir og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þegar frumvarp ríkisstjórnarinnar kemur til umræðu hér síðar í dag.