Ríkisútvarpið sf.

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 21:37:14 (6965)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:37]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að hártoga við hv. þingmann. Hann hefur tök á því í ræðu að gera grein fyrir sjónarhorni sínu til þess hvernig koma megi Ríkisútvarpinu meira á flot eða meira á flug og hefur eflaust gert það í dag. En eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu hef ég hvergi nokkurs staðar fundið stefnu Samfylkingarinnar í málinu eða hver vilji hennar er öðruvísi en það að ég hef heyrt almennar yfirlýsingar um að efla sjálfstæðið, bæði faglegt og fjárhagslegt, hjá Ríkisútvarpinu, svipað og er að finna í stefnumálum allra annarra flokka. Ég kalla enn og aftur eftir því, vegna þeirrar gagnrýni sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa haft á orði í dag vegna frumvarpsins, hver stefna þeirra í málefnum Ríkisútvarpsins sé. Hvernig þeir vilja fjármagna það á annan hátt en gert hefur verið, ef ekki með nefskattinum, hvaða leiðir vilja þeir fara þá? Ég er engu nær eftir að lesa þau þingmál sem liggja frammi og stafa frá þeim flokki.