Ríkisútvarpið sf.

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 22:18:16 (6980)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:18]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef ekki legið á því að ég tel að það sé engin úrvalsleið út úr afnotagjaldinu. Ég sagði það hér rétt áðan. Að öðru leyti vísa ég til ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur um það efni sem var prýðileg. Ég held að skoða eigi mjög rækilega hugmyndir hennar um fjármögnun.

Nefskatturinn hefur auðvitað þann stóra galla, þrátt fyrir ýmsa kosti, að ef það á að beita honum í alvöru þá þarf jöfnunarkerfi í kringum hann. Þá erum við komin út á svæði sem við þekkjum ágætlega, jaðarskattajöfnunarkerfisbírókrasíu, sem er ekki mjög heppileg og ég efast um hv. þm. Birgir Ármannsson sé neitt hrifnari af en ég.

Það er rétt, að það er auðveldara að vera á móti hlutum en með, en það sem við höfum gert, samfylkingarmenn og ég hér sjálfur, er að við höfum fram sett ákveðnar forsendur. Hvaða skilyrði þurfa hugmyndir um stjórnskipan stofnunarinnar að uppfylla til að vera tækar? Við höfum sagt að fyrir utan venjulega skilvirkni þurfi þær að uppfylla það skilyrði að bein pólitísk afskipti séu ekki til staðar.

Ég get nefnt ýmislegt. Ég er hrifinn af því að einhvers konar hlustendaþing sé haldið, einhvers konar kirkjuþing Ríkisútvarpsins sem kemur saman einu sinni á ári og hefði tiltekið hlutverk. Hv. þm. Einar Karl Haraldsson orðaði það hér áðan. Það vantar t.d. í þetta frumvarp.

En ég get líka nefnt tiltölulega einfaldar leiðir út úr þeim vanda sem menn eru í í þessum kafla frumvarpsins. Við höfum áður nefnt að það að hafa tvo starfsmenn í stjórninni væri skref í átt að því að losna við hin beinu pólitísku afskipti, hinn sjálfkrafa ríkisstjórnarmeirihluta í útvarpsráðinu. Það að festa útvarpsstjórann, negla hann niður í tíma, t.d. til fimm ára eins og þjóðleikhússtjóra, yrði strax skref frá því að útvarpsstjóri væri undir hælnum á útvarpsráði.