Ríkisútvarpið sf.

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 23:40:07 (7009)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:40]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrra andsvari mínu gafst mér ekki tóm til að mótmæla sérstaklega þeim orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem komu fram í fyrra andsvari hans, í rauninni hin ósmekklega atlaga sem hann gerði að persónu Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar sem hefur verið formaður útvarpsráðs frá 1991. Jú, það var nefnilega þannig að hv. þingmaður kom hér upp í ræðupúlt hins háa Alþingis og sagði að hann hefði ekki sinnt starfi sínu. Mér fannst afar ósmekklegt hvernig dylgjað er að því að Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson sé að kalla menn inn á teppið.

Gunnlaugur Sævar hefur einfaldlega sinnt starfi sínu sem formaður útvarpsráðs mjög vel. Ríkisútvarpið, við sjáum það, hefur að mínu mati aldrei verið öflugra en í dag með mjög öfluga dagskrárstjórn og yfirstjórn. Það er það sem við þurfum að skerpa enn frekar á en það er ekki sæmandi hv. þingmanni og formanni BSRB að koma hingað upp og segja að menn hafi ekki staðið sig í stykkinu þegar menn standa sína plikt sem fulltrúar hins lýðræðislega kjörna Alþingis. (Forseti hringir.)