Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 15:06:33 (7065)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:06]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi ekki hvarflað að nokkrum manni, og ég held ekki heldur hvað varðar þann hv. þingmann sem hér var að tala, að ekki yrði vart við framkvæmdirnar á Austurlandi á sviði orku og stóriðju. Ég held hins vegar að það hefði verið mjög óskynsamlegt að láta það algerlega fram hjá sér fara en auðvitað hefði verið mjög æskilegt að geta dregið saman seglin í útgjöldum ríkisins til rekstrar frekar en að þurfa að draga saman útgjöld ríkisins til framkvæmda á borð við vegagerð eða samgöngumannvirki.

En það verður að segja hverja sögu eins og hún er, menn hafa ekki treyst sér til þess að draga úr rekstri ríkisins. Fremur hef ég orðið þess var að hv. þingmenn, og þar á meðal stjórnarandstöðuþingmennirnir, hafa fremur hvatt til aukinna útgjalda í rekstri. En hvað um það, þetta er staðreynd máls.

Aðeins hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi um áform um lengingu flugbrauta á Akureyri og Egilsstöðum. Hann saknaði þess að hafa ekki inni fjárveitingu vegna þeirra verkefna. Ég lít svo til að það eigi ekki að fara í þær framkvæmdir nema fyrir liggi glögg og góð úttekt á því. Það er tiltölulega stutt síðan farið var á lengingu eins og t.d. á Akureyrarflugvelli af hálfu hagsmunaaðila þar en ég tel þess vegna að það sé mikilvægt að fara rækilega ofan í forsendur fyrir þeim framkvæmdum áður en lagt er í fjárfestingu á borð við þær. Nóg er við fjármunina annars staðar að gera ef ekki er talin þörf á að fara í þessar lengingar. Hvað um það, við ætlum að leggja af stað í þær og framkvæma ef (Forseti hringir.) niðurstaðan verður jákvæð.