Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 15:31:50 (7071)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:31]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun til næstu fjögurra ára. Auðvitað fagna ég því mikla fjármagni sem verið er að setja í þennan málaflokk en ég er náttúrlega ekki sammála því hvernig þeim fjármunum er skipt og ef einhver er að tala um misskiptingu fjármuna þá á hún sér stað í þessari áætlun.

Í þessum skamma ræðutíma í fyrri ræðu minni ætla ég rétt að drepa á nokkur atriði. Í fyrsta lagi vekur það athygli varðandi flugmálaáætlun að verið er að eyða um 200 milljónum í lengingu á Þingeyrarflugvelli. Þetta er varaflugvöllur fyrir Ísafjörð þar sem eru 25–30 lendingar á ári, aðallega út af því að Fokker-vélarnar geta þá verið fulllestaðar, þ.e. með 50 farþega í staðinn fyrir 25 eða 28 eða hvað það er.

Maður spyr: Hverju skilar þessi fjárfesting? Þetta er náttúrlega bara algjör della, virðulegi forseti. Ég er ekki landsbyggðarþingmaður en ég hefði frekar hugsað um að lengja flugvöllinn á Egilsstöðum þar sem eru mörg sjávarútvegsfyrirtæki og sérstaklega Síldarvinnslan, sem er í miklum útflutningi á ferskum laxi, eða að lengja Akureyrarflugvöll þannig að hægt væri að samnýta þá fyrir fiskvinnslufyrirtækin á Norður- og Austurlandi í staðinn fyrir að þurfa að keyra allt suður til Keflavíkurflugvallar. Það er hægt að lenda á Egilsstöðum með 737-vélar en hagkvæmnin er náttúrlega mest að hafa 757-fragtvélar til að hafa flutninginn enn þá hagkvæmari. Mér finnst þetta afar sérstakt.

Í öðru lagi er siglingaáætlunin, varðandi strandsiglingar og allt það, menn hafa komið inn á þær. Hér er náttúrlega verið að setja töluverða fjármuni í hafnirnar og það hefur gengið á ýmsu í því. Það eru til hafnir í Borgarnesi og á Blönduósi og víðar. Ég tel að sumar fjárfestingar í þessum höfnum og ónefndum höfnum á norðausturhorninu séu afar vafasamar. (Gripið fram í: En Kópavogshöfn?) Kópavogshöfn er undanþegin. Kópavogshöfn fékk hér á árum áður, fyrir um 25 árum, 2 milljónir í lendingarbætur, en það er búið að fjárfesta þar í hafnarmannvirkjum fyrir 350 millj. kr. án stuðnings ríkisins.

Maður spyr einnig: Hvers vegna er verið að stækka þessar hafnir og garða endalaust? Nú er það í auknum mæli svo að menn landa í þessum höfnum og skipin stækka en svo minnka þau aftur og hvaðeina. Ég held að þurfi að fara eitthvað yfir þetta.

Þegar kemur að vegáætluninni sem hefur verið mest hér til umræðu stoppar maður við númer eitt, þ.e. tekjurnar. Hvernig eru tekjurnar til komnar, virðulegi forseti? Þar er kannski fyrsta vers þungaskatturinn og þá komum við að misskiptingunni.

Þungaskattur árið 2005 er áætlaður um 2 milljarðar, 3,2 milljarðar og síðan olíugjald af því að þetta breytist á þessu ári. Á næsta ári, 2006, er hann milljarður og 3,3 milljarðar í olíugjald.

Mestu þungaflutningar í landinu fara fram á höfuðborgarsvæðinu. Ef skipta ætti þessum fjármunum með einhverju viti væri það náttúrlega ekki gert svona. Og rétt til að fara yfir þetta, af því að maður hefur svo skamman tíma til þess, tók ég saman að gamni mínu nýframkvæmdir milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Á höfuðborgarsvæðinu búa um 65% landsmanna, 35% utan þess. Árið 2005 fara 19% af nýframkvæmdum Vegagerðarinnar til höfuðborgarsvæðisins. Árið 2006, virðulegi forseti, fara 20% þangað. Árið 2007 19% og árið 2008 batnar þetta aðeins þ.e. 23%.

Mér finnst þetta vera — eigum við ekki að segja frekar þetta er misskipting fjármuna sem þingmenn landsbyggðarinnar standa að allir sem einn. Þá eru allir sammála þegar murka á út fjármagnið á þessi svæði. En ég kem að því í seinni ræðu minni hvað við getum gert annað.

En rétt til að fara yfir kjördæmin á þessum fjórum árum. Í Suðurkjördæmi fara 3,4 milljarðar plús brýr og fleira og þar búa 40 þúsund manns. Í Norðvesturkjördæmi, í kjördæmi ráðherrans, fara 6,5 milljarðar plús eitthvað annað og þar búa 30 þúsund manns. Í Norðausturkjördæmi búa 40 þúsund manns eða kannski tæplega það og þangað fara 10 milljarðar með þessari vitlausu framkvæmd, Héðinsfjarðargöngum, innifalinni. Á höfuðborgarsvæðið fara 6,6 milljarðar og þar búa 190 þúsund manns, 170–180 þúsund. (Gripið fram í.)

Það er náttúrlega algjörlega óþolandi. Við erum með sama fjármagn á þessu svæði og í Norðvesturkjördæmi þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum kemur og grenjar yfir hve litlar framkvæmdir verði þar. Það er náttúrlega alveg hreint með ólíkindum að hlusta á þetta. Það er talað um að við á höfuðborgarsvæðinu eigum sumarbústaði á Suðurlandi og hér og þar, og auðvitað er það rétt. Væntanlega borgum við þar með bensíngjald og þungaskatt og hvað þetta heitir. En þetta er náttúrlega algjörlega útilokað og ég samþykki aldrei þessa skiptingu og mun koma með breytingartillögur við þessa áætlun í seinni umræðu. Þetta er algjör misþyrming á skiptingu skattpeninga.

Loks eru það Héðinsfjarðargöngin sem er ein sú vitlausasta framkvæmd sem ég hef heyrt um í langan tíma. Það er framkvæmd upp á 6–7 milljarða og jafnvel meira. En það er annað sem ég hefði samþykkt þarna og talið rétt og það er að gera göng frá Fljótunum og beint yfir á Siglufjörð þannig að menn þyrftu ekki að keyra Siglufjarðarskriður því að þær eru allar á hreyfingu og gætu farið á haf út einn góðan veðurdag. En að fara þessa leið er alveg ótrúlegt mál. Nýbúið er að byggja veg upp á 1 milljarð frá Norðurvegi og yfir í Fljót að Ketilsstöðum og síðan ætla menn að sleppa því að keyra hann og keyra til Akureyrar til að sækja allt þangað. Maður áttar sig ekki á því hvers vegna t.d. Vinstri grænir samþykkja þetta. Hvað með Héðinsfjörðinn, á hann ekki að fá að vera ósnortinn? Eða hvernig er með þessa grænu-mennsku, er hún horfin þarna og bara vinstrimennskan eftir?