Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 16:17:26 (7089)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:17]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hérna með bréf frá borgarstjóra sem dagsett er 6. apríl. Mér barst það í hendur 9. apríl. Þar er aðeins talað um að beðið verði eftir mati á umhverfisáhrifum. Það getur vel verið að það sé frétt í Morgunblaðinu, ég veit ekkert hvenær hún er, það eru þá orðin misvísandi skilaboð frá borginni.

Varðandi það að ég sé alltaf í einhverjum föstum frösum, ég kom inn á það sem hv. þingmaður nefndi áðan um öryggismálin. Þetta er stórkostlegt öryggismál, mislæg gatnamót Miklubraut/Kringlumýrarbraut í ljósi þeirrar slysatíðni sem þar er. Það er bara staðreyndin.

Varðandi fjármál og fjármögnun vegaframkvæmda í Reykjavík sagði ég hér fyrr í dag að það lægi ljóst fyrir að ríkisstjórnin hefði rætt þau mál. Hér er verið að ræða um, ekki einhverjar milljónir, heldur milljarða. Þegar fyrir liggur hvaða leið verður farin verður auðvitað farið í undirbúningsvinnu sem tekur um tvö ár, það er álit Vegagerðarinnar að öll undirbúningsvinnan taki rúm tvö ár. Þá erum við komin að enda þessarar áætlunar þannig að, eins og ég sagði áðan, þá verður væntanlega sett fjármagn í að klára þessa leið.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að auðvitað hafa þingmenn Reykjavíkur sýnt mikla biðlund og þolinmæði í gegnum árin. Það hafa þeir gert með tilliti og í ljósi þeirrar slysatíðni sem er á þjóðvegum landsins, þess átaks sem þarf að vinna til að rétta þann vanda af. Nú er það langt í höfn vonandi, og vonandi fer þá að sjást hér til mikilla verka, eins og þegar er hafið varðandi Reykjanesbraut, Vesturlandsveg og fleiri verkframkvæmdir mætti nefna.