Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 17:10:05 (7102)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:10]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel það merki um góða áætlanagerð hjá stjórnarflokkunum að hafa lagt upp með góð og mikil áform fyrir síðustu kosningar og við munum fylgja (Gripið fram í.) þeim áformum eftir.

Áætlunin sem við erum með fyrir framan okkur er til fjögurra ára og þó að við færum aðeins til á milli ára innan áætlunartímabilsins er langt því frá að hægt sé að kalla það kosningasvik. Við stýrum fjármálum ríkisins með mjög ábyrgum hætti og færum fjármagn til opinberra framkvæmda á árunum 2005 og 2006 til áranna 2007 og 2008. Af hverju erum við að því? Til að slá á þensluna í þjóðfélaginu. Ég held að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sé algjörlega sammála mér, þó hann segi eitthvað annað í hita leiksins, um að þetta er mjög ábyrg fjármálastjórn og svona eigum við að haga okkur til að stýra þjóðarbúinu sem best. Framkvæmdirnar og áform um framkvæmdir verða allar að veruleika á áætlunartímabilinu. Þunganum af framkvæmdunum er aðeins seinkað.

Sumar framkvæmdir sem hefur átt að ráðast í hafa ekki komist til framkvæmda vegna þess að það hefur verið skortur á undirbúningi bæði vegna umhverfismats og fleiri þátta. Það þýðir því ekki að tala eins og ekkert sé í gangi. (Forseti hringir.) Hér eru miklar framkvæmdir í gangi í landinu, m.a. í kjördæmi hv. þingmanns.