Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 17:21:25 (7107)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:21]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er best að halda aðeins áfram með þessa flugvallarumræðu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á því að flugvöllur þurfi að vera nær þéttbýlinu hér á höfuðborgarsvæðinu en hann yrði þegar hann væri kominn til Keflavíkur og þegar búið verður að leggja tvöfalda braut til Keflavíkur. Hvar finna menn flugvöll nær borgum og þéttbýli en þetta? (ArnbS: London) Það tekur 20 mínútur að keyra til Keflavíkur. (Gripið fram í.) Mér finnst einhvern veginn að þetta mál (Gripið fram í.) sé í svolítið undarlegum farvegi. Það er talið gríðarlega mikils virði, þetta land sem er undir flugvellinum. Ríkið á það land að töluvert stóru leyti. Ef Reykjavíkurborg ætlar að kaupa þetta land af ríkinu þarf Reykjavíkurborg að leggja út mikla fjármuni, svo mikla fjármuni að það yrði hægt að byggja völl fyrir þá. Ég er viss um að ef ríkinu yrðu boðnir þessir peningar dytti því aldrei í hug að byggja flugvöll fyrir þá, einfaldlega vegna þess að það er flugvöllur í Keflavík. Við eigum ekki að tala um það eins og það sé að gerast á morgun að þessi flugstarfsemi yrði lögð niður. Hún verður þarna til 2015 eða 2020. (Gripið fram í.) Á þeim tíma finnst mér að menn ættu að gera sér grein fyrir því að hún flytur til Keflavíkur, að þeim tíma liðnum eða á þeim tíma einhvern tímann. Þessu vildi ég nú koma að hér.

Hv. þingmaður talaði um Héðinsfjarðargöng líka. Þau hafa komið fyrr til umræðu hér í dag. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst með eindæmum sú forgangsröðun á vegaframkvæmdum í þessu landi, að menn skuli í kjölfarið á þeim niðurskurði sem er búinn að vera hér ætla að dæla þvílíkum fjármunum sem þar eru á ferðinni í þá framkvæmd. Á meðan búa menn við það að komast ekki heim til sín annars staðar á landinu. Það versta við þessa framkvæmd er þó það að það var aldrei skoðað hvað væri skynsamlegast að gera á þessu svæði í heildina.

Hv. þingmaður sagði áðan að þetta væri hugsað til að styrkja Eyjafjarðarsvæðið. Átti þá ekki að skoða það hvort betri tenging milli Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsvæðisins gæti komið þar til greina? (ArnbS: Það var skoðað.) Það var ekki skoðað. (ArnbS: Jú, jú.) Það var bara borið saman við Lágheiðardæmið og ekki skoðað í heildina. (ArnbS: Jú, jú.) (Gripið fram í: Nei.) Nei, það er rangt og þið eigið ekki að vera að þræta hér við menn í ræðustól. (Gripið fram í.)

Ég ætla svo að halda áfram með það að samgöngumálin eru byggðamál með stórum staf og greini í þessu landi. Hér stöndum við frammi fyrir því að verið er að skera niður framkvæmdir í samgöngumálum. Það er verið að skera niður um marga milljarða. Menn hafa borið því við að það þyrfti að gera þetta vegna þess að það þyrfti að draga saman. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór vel yfir það að á sama tíma og menn telja það skipta svona miklu að skera hérna niður um 2–3 milljarða, þ.e. um 2,5 á ári, í samgöngumálum eru menn tilbúnir að lækka skatta um 6 milljarða á þessu ári og yfir 22 milljarða á tveimur og hálfu ári fram undan, þremur árum kannski. Tuttugu og tvo milljarða. Hefði nú ekki verið nær að hugsa aðeins um það, ef menn eru að tala um ábyrga fjármálastjórn, hvenær væri skynsamlegast að láta skattalækkanirnar koma til framkvæmda þó að menn ætluðu sér nú í þær? Nei, niðurstaðan varð sú að fara í þetta með þessum hætti.

Ég verð að segja að ég tel að þetta hafi ekki verið skynsamlegt og beri reyndar vott um mikla óskynsemi. Mér finnst sjálfstæðismenn, sem gerðu þetta fyrst og fremst til að uppfylla kosningaloforð, þurfa nú að horfast í augu við það að þeir geta orðið að éta ofan í sig yfirlýsingar sínar um ábyrga fjármálastjórn vegna þess að hagkerfið í þessu landi þolir kannski ekki þær miklu skattalækkanir sem búið er að ákveða og negla niður að skuli verða, hvað sem á dynur.

Svona eiga menn auðvitað ekki að fara að. Þarna eru á ferðinni margfalt hærri upphæðir en þessi niðurskurður í vegamálum sem hér þykir svo nauðsynlegt að fara í, en er auðvitað niðurskurður á þeim framkvæmdum sem skipta mestu máli fyrir byggðir þessa lands.

Síðan hefur verið talað mikið um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina, að það vanti framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Ég get alveg tekið undir að framkvæmdir vantar á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst að þegar verið er að ræða vegáætlun þyrftum við í sölum Alþingis að komast sem allra mest upp úr sporunum okkar hvað varðar kjördæmaskiptinguna. Auðvitað eru vegir landsins ekki handa viðkomandi kjördæmum. Þeir eru handa okkur öllum. Hverjir skyldu vera á bílunum sem við mætum oftast á vegum landsins? Halda menn að það séu þeir sem eiga heima í kjördæmunum? Nei, það eru Reykvíkingar, þeir ferðast og nota vegina mest af öllum af því að þeir eru flestir og eiga flesta bílana. Auðvitað skiptir gríðarlega miklu máli að menn séu ekki allt of fastir í kjördæmahugsun. Því miður hefur hún oft ráðið of miklu. Menn hafa jafnvel skipt fjármunum til kjördæmanna fram á þennan dag með þeim hætti að ekki hefur verið tekið tillit til vegalengda. Þar ætla ég að hæla hæstv. samgönguráðherra fyrir að hafa þó komið því í gegn sem hér á að gerast, eftir tvö ár reyndar, ekki strax, að þá eigi að fara að taka meira tillit til vegalengdanna. Það eru nefnilega yfir 40% veganna í Norðvesturkjördæmi. Ég veit ekki hve stór hluti þeirra er í Norðausturkjördæmi, eitthvað milli 30 og 40%, hitt er annars staðar á landinu.

Hér á sú breyting að verða að menn taki meira tillit til þessara vega, þessara vegalengda, hvað varðar framlögin. En auðvitað þurfum við að horfa á þetta fyrst og fremst sem sameiginlegt verkefni okkar allra en ekki á kjördæmavísu. Við verðum samt að gera það að hluta til vegna þess að við erum til þess kjörin að fjalla um þessi málefni, og eðlilegt að menn tali þá um og togi fram það sem þeim finnst mestu skipta í framkvæmdum í því kjördæmi sem þeir eru kjörnir fyrir.

Það styttist svo hratt sem maður má tala hér að ég geri ráð fyrir því að ég komi aftur í ræðustólinn til að fara yfir þær áherslur sem mér finnst að sé ástæða til að nefna hér betur. Vegna þess að tími minn er búinn get ég ekki gert það í þessari ræðu.