Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 18:31:43 (7136)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:31]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur á óvart að hv. þm. Magnús Stefánsson hafi ekki kynnt sér útreikninga félaga síns úr sama kjördæmi. Nóg um það. En af því að hann er formaður fjárlaganefndar og einnig þingmaður Norðvesturkjördæmis langar mig til að spyrja hann, og hann hlýtur að hafa velt því fyrir sér, hvort hann telji ekki að ríkið hafi efni á því nú að fella niður mjög svo ósanngjarna skattheimtu sem er á mjög mikilvægu vegamannvirki í Norðvesturkjördæmi, þ.e. Hvalfjarðargöngunum, hvort hann telji að það sé ekki þrátt fyrir allt borð fyrir báru að afnema þann 14% virðisaukaskatt sem nú er á veggjöldum í Hvalfjarðargöngunum og hvort hann geti ekki tekið undir það sjónarmið að ef sá skattur félli niður mundi það í raun og veru efla umferð í gegnum göngin og þar af leiðandi mjög sennilega efla bæði byggð og atvinnulíf beggja vegna ganganna og þegar upp væri staðið tapaði ríkið ekki einni einustu krónu á því að innleiða þessa mjög svo sanngjörnu breytingu á skattalögunum.