Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 20:01:19 (7165)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:01]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Í dag hefur eitt mál verið til umræðu, tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008. Ég hef fylgst með umræðunni í dag og því miður hefur mér oft á tíðum fundist umræðurnar snúast um samkeppni, átök á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, sem mér finnst miður að heyra. Auðvitað á það ekki að vera svo. Við eigum að horfa hér til landsins alls.

En hugsanlega er ærin ástæða til að umræðurnar við fyrri umr. um þingsályktunartillöguna fari á þennan veg þegar ljóst er að fjármagn til samgöngubóta og vegagerðar er skorið niður í þrjú ár, þ.e. á liðnu ári, árinu í ár og á næsta ári. Við segjum skorið niður en aðrir segja framkvæmdum frestað til ársins 2007 og 2008.

Það er ljóst að fjármagn til vegagerðar sérstaklega er allt of naumt skorið. Mér finnst eðlilegra að við slíkar áætlanir ætlum við okkur ákveðið hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu í þennan stóra og mikilvæga málaflokk og reynum að halda okkur innan þeirra markmiða í stað þess að framlög til samgöngumála séu rétt eins og harmóníka sem dregst sundur og saman. Við erum rík þjóð og eigum að hafa efni og möguleika á að halda okkur við þá áætlun í samgöngubótum sem við settum fyrir þetta tímabil.

Í þingsályktunartillögunni eru öll sviðin undir. Þar eru sett fram markmið í flugmálaáætlun og um hafnir, í vegáætlun og í öryggismálum. Ég tel að á heildina litið sé þetta mjög til bóta, að hafa þetta allt undir einni þingsályktunartillögu, reyna að horfa á þetta í heild, ná heildrænni sýn á þessar framkvæmdir, hafa landið allt undir og sjá hvernig þetta á að tengjast allt í einu neti hvort sem er á láði eða legi.

Fyrir síðustu kosningar fóru ríkisstjórnarflokkarnir fram með göfug markmið og loforð um stórfellt átak í samgöngubótum og þá sérstaklega hvað varðar vegáætlun. En vegna þeirra ákvarðana sem þá var búið að taka samhliða, að fara í miklar framkvæmdir á Austurlandi, stærstu og mestu framkvæmdir Íslandssögunnar, hefði öllum átt að vera það ljóst að þær áætlanir gætu aldrei staðist. Það kom m.a. fram í máli okkar hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að svo miklar framkvæmdir gætu aldrei gengið eftir án þess að það bitnaði á öðrum sviðum. Okkur var ljóst að á framkvæmdatímanum mundi þetta bitna bæði á rekstri og framkvæmdum hjá hinu opinbera, sem er að koma á daginn með ruðningsáhrifum stóriðjuframkvæmda. Þeir sem voru með hvað mesta glýjuna í augunum varðandi stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi held ég að sjái nú þá glýju blikna þegar þeir átta sig á að ekki er hægt að gera allt og að í raun séum við komin fram úr sjálfum okkur í framkvæmdunum og skuldum þjóðarinnar þeim tengdum.

Á þeim stutta tíma frá því að farið var að vinna að samræmdri samgönguáætlun eins og nú er gert hefur margt breyst og þá sérstaklega það að strandsiglingarnar hafa lagst af og flutningar, þungaflutningarnir, eru alfarið komnir upp á þjóðvegi landsins. Þetta hefur gjörbreytt öllum áætlunum, að ég tali ekki um viðhald á þjóðvegum landsins. Á landsvæðum þar sem stofnvegir, þjóðvegir, hafa ekki verið byggðir upp með varanlegu slitlagi, þar sem enn eru malarvegir, koma þungaflutningar mjög illa niður á burðargetu veganna. Á tímabilum þegar miklir þungaflutningar eru verða þeir bæði ófærir og mjög dýrir í viðhaldi.

Þessi þróun ýtir á að öllum varanlegum framkvæmdum í vegagerð sé flýtt. Ég tel því mikilvægt að staldra við og skoða með mjög ábyrgum hætti hvort ekki sé rétt að stuðla að því að strandsiglingum verði komið á aftur eins og við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til, að hefja uppbyggingu strandsiglinga sem nauðsynlegs hluta af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins, bæði vegna mikils álags á þjóðvegina og ekki síður vegna öryggisþátta, þ.e. til að fækka stórum bílum og minnka umferð á þjóðvegunum.

Ég sagði í upphafi máls míns að mér þætti miður að þessi umræða hefði snúist upp í átök á milli landsbyggðar og þéttbýlis. Þéttriðið og gott net samgangna er mikilvægt fyrir alla atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu. Það á ekki síður við um þéttbýlið en byggðir landsins. Þegar ég horfi til þess og öryggisþáttanna þá tek ég undir orð þeirra sem hér hafa mælt, (Forseti hringir.) bæði stjórnar og stjórnarandstöðu: Það vantar meira fjármagn á þessu tímabili til að standa við framkvæmdaáætlunina. (Forseti hringir.) Ég ætla að vona að við getum staðið öll saman um það.