Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 20:09:47 (7166)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:09]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. 10. þm. Norðaust., Þuríði Backman, að það væri auðvitað mjög gott og æskilegt ef strandsiglingar gætu staðið undir sér hér við land. Svo er því miður ekki vegna þess að fyrirtækin telja sér ekki hag í að eiga viðskipti við strandferðaskipin.

Á hinn bóginn liggur ljóst fyrir að eftir að álver er komið við Reyðarfjörð munu verða þaðan reglulegar siglingar til Evrópu, a.m.k. tvisvar sinnum í viku. Eins, eftir að álver hefur risið við Skjálfandaflóa eða Eyjafjörð, munu sömuleiðis takast upp reglulegar siglingar þangað norður í tengslum við álverið, sem auðvitað mun bæta úr skák.

Hið jákvæða við að reglulegar siglingar verða teknar upp milli Reyðarfjarðar og Evrópu er að þar með er rofin einangrun og einokun Reykjavíkurborgar á sem einu innflutnings- og útflutningshafnar landsins. Þá kemst á samkeppni við svæðið hér, sem mér finnst í samgöngumálum kominn tími til eins og ýmsir hv. þingmenn Reykvíkinga tala t.d. í flugvallarmálinu og láta sig engu skipta hagsmuni landsbyggðarinnar. Það er mjög áberandi tónn hjá þeim mönnum sem nú ráða Reykjavíkurborg, í R-listanum, og má segja að þar kveði við annan tón en meðan sjálfstæðismenn fóru með forustu í borginni.