Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 20:29:28 (7172)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:29]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Láru Stefánsdóttur að mikilvægt er að landsbyggðin eigi greiðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið í innanlandsfluginu. En sá er trúlega munurinn á sýn minni og hv. þingmanns að ég lít svo á að höfuðborgarsvæðið sé eitt svæði suðvestanlands og ekki hólfað eftir sveitarfélögum. Ég lít þess vegna svo á að flugvöllurinn í Keflavík sé flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu og hann tryggi með algjörlega fullnægjandi hætti greiðar og góðar samgöngur í lofti við Reykjavík, en legg áherslu á það um leið að við reynum í tengslum við þetta að stytta vegalengdina milli Akureyrar og Reykjavíkur á landi með því að ráðast tafarlaust í Sundabrautina. Ég hef lagt til að söluandvirði af jörðum ríkisins í Vatnsmýrinni verði varið til að efla byggðina á þeim svæðum sem þurfa um nokkuð lengri veg að fara.

Um Vatnsmýrina er það að segja að það er ekki okkar þingmanna að ákveða hvort það sé góð mýri eða ekki. Vatnsmýrin er einfaldlega á því svæði sem fólkið í landinu sækist helst eftir að búa á. Fasteignaverðið í mið- og vesturborginni endurspeglar það að hér eru atvinnutækifærin, nálægt þeim og nálægt þjónustunni vill fólkið búa og er því tilbúið til að greiða hærra verð en nokkurs staðar annars staðar fyrir að fá að búa þar. Við eigum að mæta þeim óskum fólks, nýrra kynslóða í borginni, með því að taka landið undir hátt í 20 þús. manna byggð eða álíka stórt samfélag og Akureyri. Ég held að það sé mikilvægt fyrir Reykjavík, mikilvægt fyrir landið allt, þó að ég viti auðvitað að það lengir væntanlega ferðatíma manna þá sjaldan þeir fljúga hér á milli um eins og hálftíma á dag. Það mun leiða til þess að 200 manns munu velja aðrar leiðir en flugið á degi hverjum, keyra eða nota símann eða annað þess háttar, en ég tel að það séu óverulegir hagsmunir fyrir landsbyggðina.