Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 20:36:45 (7176)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:36]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú veit ég að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mundi kannski helst kjósa að við værum um alla ævi og aldur bundin af samþykktum Alþingis frá því á síðustu öld. En það er nú ekki svo, hv. þingmaður, það erum við Reykvíkingar sem förum með skipulagsvald í Reykjavík og ákveðum hvaða starfsemi við viljum hafa, og hvar, í borginni. Okkur er frjálst og heimilt að gera breytingar á því þegar við teljum þess þurfa.

Nú telja sennilega flestir Reykvíkingar þess þurfa, m.a. borgarfulltrúi Guðlaugur Þór Þórðarson, hv. alþingismaður, sem talaði í umræðunni fyrr í kvöld sem ég heyrði ekki að hv. þm. ætti orðastað við um þetta.

Það er einkennilegt að hv. þingmaður sem oft flytur með ábyrgum hætti mál sitt þegar efnahagsmál eru annars vegar skuli tala hér svo sterkt fyrir þeirri furðulegu óráðsíu þessarar smáþjóðar að reka með 50 km millibili tvo fullkomna millilandaflugvelli fyrir 290 þús. manna samfélag. Þess háttar sóun á verðmætum hygg ég að sé erfitt að finna víða í kringum okkur og verði ekki annað kallað en flottræfilsháttur, ekki síst núna þegar þúsundir og aftur þúsundir þurfa að komast að hér í miðborg Reykjavíkur til að byggja upp heimili sín til langrar framtíðar.

Ég treysti því að við getum búið til einhverja peninga í Vatnsmýrinni til að liðka fyrir því og mæta hagsmunum landsbyggðarinnar sem að einhverju leyti þurfa að víkja í málinu.