Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 20:47:20 (7183)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:47]

Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi tipla á hér en búið er að ræða mörg af þeim málum sem upphaflega var áætlað að tala um því að margir hafa tekið til máls.

Fyrsta málið sem ég vildi ræða er lenging flugbrautarinnar á Akureyri. Fyrir norðan hefur verið mikill áhugi á því og þar var um tíma millilandaflug. Til þess að millilandaflug geti verið á Akureyrarflugvelli þarf flugvöllurinn að vera 2.400 metrar plús öryggissvæði sem fjallað er um í samgönguáætlun þeirri sem hér liggur fyrir. Þar er rætt um að gerð verði könnun á þörf. Ég tel að þörfin sé ljós og hafi komið fram og að hæstv. samgönguráðherra hafi stutt hana í tillögum sínum í ferðamálaflokknum sem áður var hér til umræðu. Á sama tíma er fjármunum varið til þess að byggja upp öryggissvæði við suðurenda, sem er líklega sá endi sem yrði lengdur, 90x90 metrar árið 2006. Því vil ég spyrja ráðherra hvort ekki sé rétt að slá dálítið í klárinn og koma lengingunni á flugbrautinni á dagskrá á sama tíma og vera búinn að því og gera mönnum kleift að geta tekið á móti ferðamönnum á Akureyri fyrir norðursvæðið til að njóta þeirra vega og náttúru sem m.a. er gert kleift með þessari samgönguáætlun.

Annað mál sem ég vildi gjarnan taka hér upp er frumkvæði heimamanna að Vaðlaheiðargöngum. Nú ber svo við að heimamenn hafa tekið sig saman, sveitarstjórnir, fyrirtæki og almannasamtök hjá KEA um að setja fjármuni í forrannsóknir á göngum undir Vaðlaheiði til að tryggja að hægt sé að byggja upp svæðið Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjörð sem eitt atvinnusvæði. Fyrstu niðurstöður þeirra forrannsókna fást nú á vordögum og því er nauðsynlegt að fara í ítarlegri rannsóknir og fá heimildir til að vinna að framkvæmdum í tengslum við Vaðlaheiðargöng. Á sama tíma þarf að liggja fyrir vilji hæstv. samgönguráðherra um að vegtenging sé við veg Vaðlaheiðarganga og heimild til gjaldtöku um þau göng. Jafnframt eru fleiri atriði sem þarf auðvitað að ræða nánar, en Greið leið, sem er undirbúningsfélag í eigu þeirra sem ég áður nefndi að gerð Vaðlaheiðarganga, er með þetta mál.

Það kemur mér dálítið á óvart af því að hér eiga heimamenn frumkvæði og hafa dálítið bolmagn í fjármálum til að taka að sér framkvæmd og eru að biðja um fyrirgreiðslu sem er ekki af þeirri stærðargráðu sem heildarkostnaður slíkra ganga er, að ekki sé gefið meira undir fótinn í þessari samgönguáætlun og það gert mögulegt fyrir heimamenn sem hafa sýnt frumkvæði og vilja fara í einkaframkvæmd. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég bjóst við að hæstv. samgönguráðherra hefði einmitt áhuga á því þegar menn sýna frumkvæði og dug og vilja spreyta sig á hlutunum. Þess vegna vil ég gjarnan heyra skýringar hæstv. samgönguráðherra á þessu atriði.

Annað sem er líka umhugsunarvert og mig langar að spyrja samgönguráðherra um er stytting sú sem fyrirhuguð er á flugvellinum á Egilsstöðum vegna öryggissvæðis, þ.e. 90x90 metrar. Ætlunin er að stytta flugvöllinn á Egilsstöðum frá því sem nú er eftir því sem hér stendur til þess að ná þessu „en lendingarvegalengd úr norðri styttist um 90 metra“, svo ég vitni hér orðrétt, með leyfi forseta.

Það hefur verið rætt mikið í dag að samgöngumál séu lífæð Íslands að mörgu leyti. Fyrir okkur sem höfum nýtt okkur frelsi til búsetu með því að búa annars staðar en hér, sem er þó öllu auðveldara og léttara, eru samgöngur innan svæðis og samstarf og sameiginlegur kraftur þeirra sem búa á svæðunum mikilvægur þáttur. Því er mjög mikilvægt að stytta leiðir, tryggja samgöngur og auka öryggi. Þeir sem þekkja til vita að Víkurskarð getur verið mjög alvarlegur farartálmi og hættulegur milli viðkomandi svæða ásamt því að nú eru ekki lengur tryggar flugsamgöngur frá Húsavík eins og áður var og þurfa menn því að sækja slíkar samgöngur til Akureyrar. Þar verða menn oft veðurtepptir báðum megin við og komast ekki um þessa vegi.

Að öðru leyti vil ég lýsa ánægju minni með að vegur um Hólmatungur er kominn inn í þessa áætlun og gerir okkur kleift að byggja upp ákveðna ferðamennsku í héraðinu og ég hvet til þess að unnið verði hratt og örugglega að því máli.

Að lokum vona ég að hæstv. samgönguráðherra sjái sér kleift að svara þeim spurningum sem ég varpaði fram í ræðu minni.