Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 21:09:41 (7190)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:09]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr hvort það hugnist mér og skoðunum mínum að fara með innanlandsflug til Keflavíkur. Eins og ég sagði í andsvari mínu fyrr í dag líst mér ekki sérstaklega vel á þann kost. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig um það mál að ég óttast það að fari innanlandsflugið til Keflavíkur muni það annaðhvort leggjast af eða dregið verði úr þeirri þjónustu sem við höfum haft hvað varðar innanlandsflug á síðustu árum og áratugum. Mér hugnast ekki sá kostur.

Það eina sem ég hef haft fram að færa varðandi þetta mál er að ég vil finna flugvellinum annan stað í Reykjavík eða í nágrenni Reykjavíkur. Ég hef nefnt t.d. Miðdalsheiði við Hafravatn, Bessastaðanes, Hvassahraun eða einhverja aðra staði. (Forseti hringir.) Ég vil einfaldlega sjá að flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni, þó þannig að ekki verði dregið úr (Forseti hringir.) þjónustu við landsbyggðarmenn.