Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 22:20:19 (7214)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:20]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að bæta dálitlu við það sem ég sagði í dag, því tíminn er fljótur að fljúga þegar ekki eru nema átta mínútur til að tala um þessi mál.

Ég vil koma því að að ég tel að skoða þurfi betur en menn hafa gert undirbúning framkvæmda í landinu í vegamálum og við höfum um það dæmi að ekki hefur verið nægilega vel horft til framkvæmda. Framkvæmdum er heldur ekki raðað niður eftir hagkvæmni eins og vera skyldi. Ég held að t.d. núna þyrfti að skoða mjög vandlega með hvaða hætti mætti standa að átaki til þess að stytta þjóðveg 1 og síðan virðist það liggja nokkuð í augum uppi að fara þurfi yfir öll mál hvað varðar endurbyggingu vega, vegna þess að þeir þola ekki þá umferð sem á þá er lögð eftir að þungaflutningarnir jukust svo gríðarlega sem raun ber vitni.

Þetta tel ég að sé hluti af því sem þurfi að fara vandlega yfir núna. Síðan þurfa stjórnvöld auðvitað að hætta þeim vingulshætti sem hefur verið í vegamálum á undanförnum árum. Það gengur ekki að menn komi hér tvisvar á kjörtímabili, í annað skiptið til að boða átak í vegamálum og í hitt skiptið til að skera niður framlög til vegamála. Þá er betra held ég að menn sættist á að reyna að halda í þá áætlun sem liggur fyrir en standa svona að málum. Því eins og kom fram sérstaklega vel í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, þá hætta menn líka að trúa, menn hætta að trúa á kraftaverkin þegar þau eru svo tekin til baka að hluta til eða að miklu leyti í framhaldinu þegar menn telja sér henta.

Töluvert uppnám varð í umræðunni í dag, einmitt vegna ræðu hv. þingmanns og fleiri ræðna sem hér voru haldnar. Stjórnarliðar, m.a. hv. þm. Gunnar Birgisson, hafa látið það koma mjög skýrt fram að þeir sætti sig ekki við þá áætlun sem hér er lögð fram og ætla að ná fram breytingum á henni, færa fjármuni til og auka fjármuni inn í áætlunina, sem ég vona sannarlega að mönnum takist að gera, því að ég er á þeirri skoðun að það sé mjög vont mál ef þannig fer, eins og hér er gert ráð fyrir, að á þessu ári og á næsta verði svo fátæklegt í vegáætlun eins og raun ber vitni. Það er ekki gott fyrir byggðir landsins ef þannig heldur fram sem horfir hvað þetta varðar.

Þess vegna hvet ég menn til þess að standa nú við stóru orðin og sjá til þess að hér verði meira til skiptanna en til stendur samkvæmt því sem á blöðunum er.

Ég var ekki einn af þeim sem samþykktu síðustu áætlun þegar hún fór í gegnum þingið. Það var af ýmsum ástæðum sem ég sætti mig ekki við þá áætlun. Það hefði þó verið betra að menn hefðu staðið við hana, en því er ekki að heilsa.

Margar framkvæmdir hafa komið hér til umræðu í dag, m.a. göng undir Vaðlaheiði sem yrðu gerð sem einkaframkvæmd. Ég hvet til þess að menn taki jákvætt á því máli. Ég held að það sé mjög gott ef framkvæmdir af því tagi geta orðið, en þá með fyrirvara um að það verði gert með svipuðum hætti og gert var gagnvart Hvalfjarðargöngum, að þeir sem þar taka hlutina að sér standi ábyrgir fyrir því að fjármunirnir sem í framkvæmdina þarf skili sér til baka með veggjöldunum.

Hér hefur svo sem ekki verið rætt um allar framkvæmdir sem menn hafa áhuga á að fara í og gætu haft áhrif. Ég held að umræðan um vegáætlun hefði þurft að vera svolítið ríflegri þannig að menn gætu fjallað um sumt af þeim hugmyndum sem eru á floti. Það er t.d. hugmyndin um hálendisveg milli Akureyrar og Reykjavíkur. Sú hugmynd á fullt erindi í umræðu hér. Ég er vantrúaður á hana og tel að rökstuðningurinn fyrir þeirri hugmynd sé ekki mjög sterkur, tel reyndar að stytting á þjóðvegi 1 sé eitthvað sem menn þurfi að skoða mjög vandlega hversu langt er hægt að komast í því. Fyrir liggur að hægt er að stytta þá leið til Akureyrar um 20–40 kílómetra. Ef tækist að stytta hana sem svarar þessu, þá fer nú að fara lítið fyrir hagkvæmninni í að búa til veg upp á hálendið og sneiða framhjá öllum byggðarlögum sem eru á leiðinni norður eins og nú háttar til.

Auðvitað munu verða mikil átök um þennan hálendisveg. Inn í þá umræðu verða menn líka að taka að vegurinn um Kjöl er til staðar og hann þarf að bæta. Sú leið er líka stytting á leiðinni norður ef hann verður gerður þannig að hann verði almennilega fær fyrir flutninga, veruleg stytting. Ég kalla eftir því að menn skoði þetta mál allt saman vel, því vissulega eiga þessar hugmyndir allar rétt á sér, menn þurfa auðvitað að ræða þær. Þó að mér lítist ekki á þessa hugmynd, þá viðurkenni ég að ræða þurfi hana.

Ég ætla að ljúka máli mínu, tími minn er senn á þrotum, með því að endurtaka að ég hvet menn til dáða hvað það varðar að auka fjármuni til vegagerðar. Ég ætla satt að segja að vona að menn standi við stóru orðin sem hafa verið sögð hér í dag. Ég held að ekki sé vafi á því að þau rök sem hér hafa verið færð fram fyrir því að ekki sé á ferðinni slík hætta sem hefur verið notuð sem röksemd fyrir því að skera niður til vegamála, sé eins stór og menn vilja vera láta þegar hún er borin saman við þær stærðir sem eru í hagkerfinu. Þá virðist nú ekki geta munað miklu þótt menn haldi því striki sem reiknað var með í þeirri vegáætlun sem lá fyrir. En niðurskurðurinn er tilfinnanlegur og kemur illa niður og enn verr þegar tekið er tillit til þess að það á að fara að eyða fjármunum í verulega stóra framkvæmd í jarðgangagerð.