Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 22:43:16 (7222)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:43]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er mikil óánægja með þessa samgönguáætlun, ekki bara meðal stjórnarandstæðinga heldur líka í stjórnarflokkunum. Það höfum við heyrt í dag. Þessari umræðu fer að ljúka en við höfum heyrt það skýrt og greinilega að mjög mikil úlfúð ríkir um þessa samgönguáætlun, langt í frá að nokkur eining ríki um hana.

Það var athyglivert að heyra að farið hefði fram atkvæðagreiðsla um þingsályktunartillöguna og að hv. þingmaður hefði greitt atkvæði gegn henni. Þá væri fróðlegt að heyra hvernig sú atkvæðagreiðsla fór, bæði í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og líka í þingflokki Framsóknarflokksins. Ég hygg að í báðum þessum flokkum sé mikil óánægja. Það eru fjölmargir landsbyggðarþingmenn en líka þingmenn af höfuðborgarsvæðinu úr stjórnarflokkunum sem hafa kosið að þegja í þessari umræðu, hafa ekki tekið til máls í dag, til að mynda allir þingmenn úr mínu kjördæmi, stjórnarþingmenn Suðurkjördæmis, fyrir utan Ísólf Gylfa Pálmason varaþingmann. Þetta finnst mér segja meira en mörg orð.