Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 22:50:05 (7228)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:50]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Gunnar I. Birgisson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að það sem stæði í vegi fyrir vegaframkvæmdum í Reykjavík væri dæmalaust klúður borgaryfirvalda í skipulagsmálum. Það er ekki bara að R-listinn í Reykjavík hafi tekið af skipulagi mislæg gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar heldur hefur hann enn ekki getað komið sér saman um hvar Sundabrautin eigi að liggja. Ég leyfi mér að rifja upp í því sambandi að í mars árið 2000 sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar á fundi í Grafarvogi, með leyfi forseta:

„Samkvæmt samkomulagi á milli borgarstjóra og samgönguráðherra verður gerð skýrsla um umhverfismat í sumar, þar sem leiðirnar verða bornar saman og fljótlega í haust verður tekin ákvörðun um eina lausn og ef allt gengur að óskum ættu framkvæmdir að geta hafist á næsta ári.“

Á næsta ári, árið 2001, er sagt. Þetta er að mörgu leyti ástæðan fyrir því að hvorki gengur né rekur í þessum málum (Forseti hringir.) í Reykjavík og segir sína sögu um það hvernig á málum er haldið af hálfu R-listans í Reykjavík. (Gripið fram í: Þetta var ekki andsvar.)