Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 22:52:51 (7231)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:52]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Það hefur verið sérlega áhugavert að fylgjast með umræðunni í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fylgist með umræðu um samgöngumál frá morgni til kvölds. Þingreyndari menn eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson höfðu orð á því hér í dag að annar bragur væri á þessari umræðu en oft áður vegna þess að hér væru menn þvert á flokka í meira kjördæmapoti en oft áður. Mér segir svo hugur um að það sé fyrst og fremst vegna þess að þingmenn höfuðborgarsvæðisins eru núna einu sinni, í fyrsta skipti kannski, að reyna að standa á sínu.

Ég held að það sé óumdeilt að verkefnin séu endalaus og það er líka óumdeilt að það hallar verulega á höfuðborgarsvæðið í þessari áætlun. Henni er ætlað að gilda til 2008. Þessu er misskipt þannig að í hlut hvers íbúa á landsbyggðinni kemur ríflega helmingi hærri fjárhæð en á íbúa á höfuðborgarsvæðinu ef við kjósum að skoða þá skiptinguna. Forsendur þessa öðrum fremur eins og hefur verið unnið eftir þessum áætlunum og þessar áætlanir settar fram undanfarin ár eru fyrst og fremst byggðasjónarmið. Það er ekki verið að horfa til jafnræðis íbúa landsins. Önnur forsenda skiptingarinnar getur líka verið hugsanlega greiðari og öruggari umferð þar sem við settum í forgang alla svörtu blettina eða réttara sagt allar slysagildrurnar og líka aukið umferðaröryggi um allt land.

Það er alveg ljóst að samgöngukerfið, vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu er löngu sprungið. Það vitum við öll. Ég segi fyrir sjálfa mig sem bý í austasta hluta borgarinnar að það þarf ekki einu sinni slæma færð að vetri til til að ég sé hálftíma niður í miðbæ. Sömu sögu hafa aðrir að segja sem búa í nágrannasveitarfélögunum.

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan: „Nú er komið að því að klára útkjálkana, norðaustur- og norðvesturhornin, vegna þess að við byrjuðum í Reykjavík.“ Þá velti ég fyrir mér hvenær hv. þingmanni og öðrum sem hugsa í þessa veru finnst tímabært að snúa til höfuðborgarinnar aftur. Hversu mikið þarf höfuðborgarsvæðið að belgjast út og stækka bæði í fermetrum og íbúafjölda áður en mönnum finnst orðið tímabært að huga að því hvernig umferðaröryggi og umferð á höfuðborgarsvæðinu er háttað? Hæstv. samgönguráðherra sagði áðan um að skipting landsins eftir íbúafjölda væri ófær forsenda. Ég spyr: Hvaða forsendur eru menn að gefa sér þegar verið er að skipta fjármagni í samgönguáætlun og sérstaklega í vegagerð ef ekki á að skipta þessu eftir íbúafjöldanum?

Ákveðin verkefni á höfuðborgarsvæðinu eru meira krefjandi en önnur og ýmsum verkefnum er verið sinna, t.d. tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbænum, tvöföldun Reykjanesbrautar og svo endurbætur á Suðurlandsvegi á Hellisheiðinni þar sem verið er að tala um þetta „tveir plús einn“. Annað mjög þarft og löngu tímabært að ráðast í er Sundabrautin og mislægu gatnamótin á Kringlumýrarbraut og Miklubrautinni.

Það er heldur ekki bara sprungið vegakerfi sem kallar á að ráðist sé í þetta heldur verðum við líka að horfa til þess að við erum að leitast við að skilgreina Reykjavík sem höfuðborg allra landsmanna og þetta snertir greiða aðkomu fólks af allri landsbyggðinni að höfuðborgarsvæðinu. Við verðum líka að horfa til þess að við hljótum að skilgreina höfuðborgarsvæðið stærra en bara höfuðborgina Reykjavík, Hafnarfjörð og Garðabæ. Við verðum líka að skilgreina nágrannasveitarfélögin, Árborgarsvæðið, Borgarbyggð, Akranes og Suðurnesin sem eitt höfuðborgarsvæði, eitt atvinnusvæði, eitt íbúasvæði og eitt þjónustusvæði. Þess vegna skipta þessar framkvæmdir, ég tala nú ekki um Sundabrautina, svo verulega miklu máli. Í öðru er verið að vinna eins og tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.

Ýmsir höfuðborgarþingmenn hafa haft orð á þessu í dag. Hins vegar hefur hæstv. samgönguráðherra ekki haft mörg orð um þetta heldur þung orð þar sem hann fjallað um þessar framkvæmdir í framsöguræðu sinni og kenndi borgarstjórn eða borgaryfirvöldum um allt saman, að ekki væri gert ráð fyrir fjármagni í þessar framkvæmdir í þessari áætlun. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson og Gunnar Birgisson hafa tekið í sama streng, að þar liggi hundurinn grafinn.

Hæstv. samgönguráðherra sagði líka og lýsti þeirri skoðun sinni að fjármögnun Sundabrautar væri svo stórt og viðamikið verkefni að taka yrði sérstaklega á því. Því beini ég þeirri spurningu til hæstv. samgönguráðherra hvernig hann geri ráð fyrir að taka á fjármögnun til Sundabrautar, hvaðan hann geri ráð fyrir að fjármagnið til Sundabrautarinnar komi. Ég spyr líka hæstv. samgönguráðherra hvað hann geri ráð fyrir að undirbúningur Sundabrautar taki langan tíma vegna þess að hæstv. samgönguráðherra sagði í dag að það fjármagn sem gert væri ráð fyrir að rynni til þessa í dag ætti að fara í undirbúning út þennan tíma sem áætlunin gildir. Mér heyrist því menn gera þar ráð fyrir fjögurra ára undirbúningstíma.

Herra forseti. Önnur mál sem hafa verið rædd í dag og ég vil gjarnan koma inn á eru t.d. Reykjavíkurflugvöllur. Við framsóknarmenn höfum tekið þá afstöðu að við viljum að flugvöllurinn verði áfram rekinn í Reykjavík. En við höfum líka lagt ríka áherslu á að leitað verði allra leiða til að skipuleggja þetta svæði og næsta nágrenni þannig að landið sem undir flugvöllinn fer minnki og stuðli að eðlilegri byggðaþróun í Reykjavík. Það hefur margoft komið fram í dag að þingið hefur þegar ákvarðað hvernig þessum málum skuli háttað og þar til önnur ákvörðun verður tekin á Alþingi er gert ráð fyrir flugvellinum þarna næstu árin.

Mig langar að lokum, herra forseti, að beina nokkrum spurningum til hæstv. samgönguráðherra sem lúta að umferðaröryggi sérstaklega og áætlun um umferðaröryggi vegna þess að það kemur fram í áætluninni að þar er gert ráð fyrir fjórum sinnum 385 millj. kr. eða 1.540 millj. kr. á þessu tímabili. Í því samhengi langar mig að biðja hæstv. samgönguráðherra um að fara yfir það með okkur hversu stór hluti umferðaróhappa samkvæmt rannsóknum og því sem sérfræðingar segja á þessu sviði er rakinn til bifreiðarinnar sem slíkrar, til vegagerðar og svo í þriðja lagi til ökumannsins sem slíks því ég man ekki annað en að í nefndarstarfi í þinginu þegar verið var að fjalla um Umferðarstofu að þá hafi komið fram að jafnvel 85% umferðaróhappa og slysa væru rakin til ökumannsins. Þess vegna vil ég leggja áherslu á að horft sé til þess en ekki bara til vegagerðar og að öll vegagerð út um allt land rökstudd með því að hún eigi að þjóna umferðaröryggismálum. Mér þætti vænt um að fá viðbrögð við þessu frá hæstv. samgönguráðherra.

Hins vegar hlýtur maður að spyrja sig að því hvort við ætlum alltaf að bregðast við byggðaröskuninni með áframhaldandi hærri framlögum á landsbyggðina eða hvort við ætlum í framtíðinni (Forseti hringir.) að láta fjármagnið fylgja fólkinu hingað suður.