Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 23:10:24 (7237)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:10]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki sett mig gegn því að ákveðnum framkvæmdum verði frestað vegna þess að ég vil undir engum kringumstæðum stuðla að einhverri þenslu í samfélaginu. En við tölum um tiltekna frestun framkvæmda. Það sem ég gerði að meginefni áðan var skiptingin og á hvaða forsendum við ætluðum að skipta, ekki bara við þessa skiptingu heldur næst þegar við gerum áætlun og hvort það ætti endalaust að vera svo mikil misskipting á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins, vegna þess að á sama tíma og landsbyggðin er að þróast og það er tiltekin byggðaröskun þar er íbúafjöldinn að aukast í Reykjavík.

Hvað varðar kosningaloforð framsóknarmanna þegar kemur að samgöngum og vegagerð er alveg ljóst að eitt af því sem reis hæst í því var Sundabrautin og mislæg gatnamót Miklubrautar. Þetta er eitt af því sem við lögðum mikla áherslu á, og ég er að tala um framsóknarmenn á landinu öllu. En það er ekki þar með sagt að menn hafi ekki ætlað að styðja aðrar framkvæmdir annars staðar. Mér finnst alveg út í hött að þessu sé stillt upp þannig að þeir sem tala fyrir einhverjum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu séu endilega að tala gegn landsbyggðinni því það erum við ekki að gera. Allir hv. þingmenn þurfa að horfa til landsins alls. Ég tel að við þyrftum að ná einhverju samkomulagi um það hvaða forsendur við setjum fyrir forgangsröðuninni.