Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 23:12:07 (7238)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:12]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður heldur áfram að fara í kringum það hvers vegna framsóknarmenn sviku kosningaloforðin. Ég man ekki betur en að formaður Framsóknarflokksins hafi einmitt lýst því yfir á fundum í Norðvesturkjördæmi að nú væri komið að því að gera stórátak þar. Sá tvískinnungur sem þingmaðurinn hefur hér frammi og er einkennandi fyrir Framsóknarflokkinn sérstaklega er alveg opinber.

Ef fram heldur sem horfir í byggðamálum og hvort sem er verður aldrei þörf fyrir Sundabraut. Þegar kominn verður góður vegur í gegnum Mosfellsbæ ætti það að duga því fólksflutningarnir af landinu inn til höfuðborgarsvæðisins verða svo miklir að það verður engin þörf fyrir Sundabraut.

Eitt vil ég líka benda þingmanninum á að einn helsti atvinnuvegur Reykvíkinga er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma ekki hingað bara til að heimsækja Reykjavík, þeir koma til að fara út um allt land. Mér finnst þingmaðurinn með eindæmum þröngsýn, en það kannski fylgir framsóknarmönnum.