Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 23:17:54 (7242)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:17]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það þarf tvo til til að hægt sé að fara í framkvæmdir eins og mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það vill þannig til eins og ég fór yfir áðan að annar aðilinn var til. Hann var klár, þ.e. ríkið var klárt með fjármuni til að veita í þessa framkvæmd en borgaryfirvöld hins vegar tóku þessa framkvæmd, hvort sem hv. þingmanni líkar það betur eða verr, út af skipulagi í Reykjavík. Þegar þessir fjármunir lágu fyrir voru borgaryfirvöld, R-listinn í Reykjavík, ekki tilbúin með skipulagsmál sín til að hægt væri að ráðast í framkvæmdina. Að því stóðu m.a. framsóknarmenn í Reykjavík sem hv. þingmaður segir að séu núna boðnir og búnir að fara í þessa framkvæmd.

Hið sama má segja um Sundabrautina og á þetta er ég að benda vegna orða hv. þingmanns þegar hún bar á móti því sem haldið hefur verið fram að það séu borgaryfirvöld (Forseti hringir.) sem hafa staðið í vegi fyrir þessum miklu (Forseti hringir.) framförum í samgöngumálum í Reykjavík. Það er slæmt.