131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:32]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fer ekkert á milli mála að uppbygging vegakerfisins er geysilega mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna. Það er auðvitað liður í því sem teknar eru ákvarðanir um það í samgönguáætluninni að leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu vega eins og innan þjóðgarða. Það er alveg ný ákvörðun. Það hefur ekki verið áður. Við höfum verið með sérstakar fjárveitingar til ferðamannaleiða svokallaðra en nú bætist við sú áhersla að tengja Dettifossveginn uppbyggðan og leggja áherslu á Uxahryggjarveginn og veg gegnum þjóðgarðinn á Snæfellsnesi.

Það fer ekkert á milli mála að ferðaþjónustuna skiptir þetta miklu. Þess vegna held ég að ekki þurfi að leggjast í neinar sérstakar rannsóknir til að komast að þeirri niðurstöðu að uppbygging vegakerfisins er mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna.