Staða íslenska kaupskipaflotans

Miðvikudaginn 13. apríl 2005, kl. 14:04:12 (7288)


131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[14:04]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að færa þetta mál í tal. Nýlega skilaði starfshópur mjög ágætri áfangaskýrslu um stöðu íslenskra kaupskipa. Sú skýrsla er samin í beinu framhaldi af þingsályktunartillögu sem ég flutti á síðasta þingi ásamt öðrum hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins. Sú staðreynd að ekkert kaupskip er lengur skráð í íslenskri skipaskrá og að Íslendingum í áhöfnum farskipa sem sigla til landsins hefur fækkað og að þeir munu algerlega hverfa úr áhöfnum skipa er áhyggjuefni. Það er ekki eingöngu áhyggjuefni út frá skattalegu tilliti, þetta er áhyggjuefni út frá mengunarsjónarmiðum. Sjómenn sem eru lítt staðkunnugir eru að koma með hættulega farma til landsins en hins vegar er mjög brýnt að það séu menn sem þekkja til staðhátta. Einnig ögrar það sjálfstæði þjóðarinnar að vera ekki með eitt einasta íslenskt farskip.

Það er alveg ótrúleg staða og það eru mjög mikil vonbrigði að heyra í hæstv. fjármálaráðherra. Hann telur upp hvað stendur í þessari ágætu skýrslu og ýmis vandamál við það að framfylgja þeim tillögum sem eru í henni. Það er ekkert vandamál að leysa þessa hluti. Það er bara að fara sömu leið og nágrannaþjóðirnar. Það er þeim mun áheyrilegra að heyra óvænta jákvæðni hjá ungum framsóknarmönnum í garð þess háttar tillagna. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi nú að taka á málum í staðinn fyrir að vera með ræðuhöld og drepa málum á dreif, fara þá einföldu leið sem nágrannaþjóðir okkar hafa farið til að flagga skipunum hér heima.

Ég vil að lokum, frú forseti, lýsa yfir mjög miklum vonbrigðum með ræðu hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni.