Sjúkrahússbyggingar í Fossvogi

Miðvikudaginn 13. apríl 2005, kl. 14:37:51 (7303)


131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Sjúkrahússbyggingar í Fossvogi.

512. mál
[14:37]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi var spurt hvaða verð mætti hugsanlega fá fyrir eignir Landspítala – háskólasjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef ekki svör við því hér en það er ljóst að þær eignir eru mjög verðmætar, m.a. Vífilsstaðalandið og fleiri eignir sem mikil verðmæti eru í.

Varðandi svo seinni spurningu hv. fyrirspyrjanda um hvort ég væri tilbúinn til að ganga til samninga um rekstur einkaspítala er ég tilbúinn til að skoða allar hugmyndir. Það færi auðvitað eftir eðli máls en ég vil undirstrika í því sambandi að sameining spítalanna á sínum tíma varð til þess að sameina hátækniþjónustuna og það er viðurkennd staðreynd að upptökusvæði hátæknispítala er talið t.d. erlendis fjölmennara en við erum, við Íslendingar. Ég hef heyrt þær kenningar að það þurfi 700 þús. manna upptökusvæði fyrir einn hátæknispítala þannig að ég sé ekki að við mundum ganga til samkomulags um tvo spítala af því tagi.

Ég er tilbúinn til að skoða allar hugmyndir auðvitað en ég vil undirstrika að hér er um langtímamál að ræða og það er ekki komið að því á næstu mánuðum að þetta verði að veruleika. Þarna er verið að tala um að byrja, ef vel væri, árið 2009 (Forseti hringir.) en þetta tæki nokkurn tíma.