Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar

Miðvikudaginn 13. apríl 2005, kl. 15:42:43 (7334)


131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar.

718. mál
[15:42]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um það hvort úthlutunarreglur Reykjavíkurborgar varðandi úthlutun byggingarréttar við Lambasel uppfylli kröfur félagsmálaráðuneytis til lóðaúthlutunar hjá sveitarfélögum almennt.

Ástæða þess að ég spyr er sú að lóðaúthlutunarreglur sveitarfélaga eru mismunandi og aðferðirnar einnig. Í fyrsta lagi hefur þetta verið gert þannig, eins og þarna á að gera, að hafðar eru fyrir fram tilbúnar reglur sem segja að viðkomandi verði að vera búsettur í Reykjavík í eitt ár frá 2001 og í öðru lagi sé lóðaverðið 4,8 millj. og síðan eigi að draga úr umsækjendum.

Reykjavíkurborg hefur líka notað aðra aðferð ásamt öðrum sveitarfélögum eins og Garðabæ, að bjóða upp lóðir, þau hafa gert það í fjölbýli og hæstbjóðandi þá fengið. Þar sem það vantar stórlega lóðir eins og ástandið er á markaðnum hefur verðið farið upp úr öllu valdi.

Í sérbýli eins og þarna er hafa sveitarfélögin dregið eða þá eins og við í Kópavogi, við erum með ákveðnar reglur og úthlutum þessu í bæjarráði eftir þeim reglum. En t.d. í Hafnarfirði eru kröfur um að 80% af úthlutununum eða lóðunum verði úthlutað til Hafnfirðinga og 20% til utanbæjarmanna. Kjarninn í fyrirspurn minni er sá að sveitarfélögin geta sett saman hvaða skilyrði sem er eins og þetta að eingöngu verði úthlutað til Reykvíkinga. Ef þetta yrði gert í öllum úthlutunum í Reykjavík fengju bara Reykvíkingar. Er það jafnræðisregla sem er í heiðri höfð?

Ég tók eftir því að um daginn var auglýst í blöðunum að fyrir lysthafendur væru aðilar tilbúnir að kaupa lóðirnar á 8,4 millj. en þeir sem fengju lóðirnar þyrftu að borga 4,8, þannig að menn væru að fá 3,6 millj. á milli. Þetta er náttúrlega happdrætti. Í þessu happdrætti eru 30 lóðir og 3,6 millj. í pottinum fyrir hverja lóð. Ég spyr: Er slíkt happdrætti eðlilegt og samkvæmt jafnræðisreglunni? Ég tel að aðferð eins og þessi eigi við í Las Vegas eða einhvers staðar, en ekki á þessu svæði.