Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar

Miðvikudaginn 13. apríl 2005, kl. 15:49:59 (7336)


131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar.

718. mál
[15:49]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Birgissyni fyrir að vekja athygli á þessu máli og sömuleiðis hæstv. félagsmálaráðherra sem hefur þorað að ræða það á þessum vettvangi en hér horfum við upp á gríðarlegan vanda. Það segir sig sjálft að þegar hátt í 6 þúsund manns sækja um 30 lóðir þá er gríðarlegur skortur á ferðinni. Það er hárrétt sem kom fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra að þetta er orðið ansi sérkennilegt þegar Reykjavíkurborg eða R-listinn hefur hrakið ungar fjölskyldur úr borginni með lóðaskortsstefnu. Loksins þegar opnast smáglufa, heilar 30 lóðir, er mönnum ekki heimilt að sækja um, fólk sem hefur kannski alist upp og búið alla sína tíð í Reykjavík en ekki fengið lóðir í lóðaskortsstefnunni. Það eru margir fletir á þessu, virðulegi forseti, og einn er sá þáttur þegar sveitarfélögin eru að græða í leiðinni eins og gerst hefur í Reykjavík og ég hef rætt áður.