Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar

Miðvikudaginn 13. apríl 2005, kl. 15:53:32 (7339)


131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar.

718. mál
[15:53]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Það er eitt í þessu lóðalotteríi sem er verið að fara í og hefur verið gert í Reykjavík og Mosfellsbæ og víðar, að það er engin aðferð fullkomin í þessu máli, hvort sem það er gert eins og við gerum í Kópavogi, við erum með ákveðnar reglur upp á 10–11 afbrigði, eða þá boðið sé upp hæstbjóðanda eða farið í útdrátt, happdrætti.

Í þessari happdrættisleið, sem virðist vera algerlega ær og kýr lögspekinga ráðuneytisins, hún uppfylli jafnræðisreglur og allt það, fer fólk í kennitölusafnanir, safnar kennitölum, og síðan er dregið úr pottinum eins og í happdrætti. Þá er spurningin: Hvað þarftu marga happdrættismiða til að geta fengið vinning? Það er gallinn. Hvað eiga sveitarfélögin að gera við unga fólkið sem er að sækja um lóðir og vill byggja í sveitarfélaginu? Það fær ekki möguleika. Það verður að fara í pottinn og draga eða þá kaupa lóðirnar af bröskurum dýru verði. Það er engin aðferð fullkomin í þessu en ég held þó að okkar aðferð í Kópavogi sé skást. Mér finnst þetta afar ósanngjarnt.

Hvað með unga fólkið í Reykjavík? Borgarstjóri, virðulegi forseti, lét hafa það eftir sér að þarna ætti að vera ungt fjölskyldufólk úr Reykjavík. Þá er spurning, hvernig á að draga út þar?

Ég er sammála hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að láta á sveitarfélögin um að setja reglur um þetta og veldur þá hver á heldur. Ef menn vilja missa unga fólkið sitt út úr sveitarfélögunum þá það, og hafa síðan þessa aðferð. Þetta lítur allt voðalega vel út á pappírunum en gerir það ekki í reynd. Í einu sveitarfélagi í þessum útdrætti vissi ég að tveir aðilar söfnuðu nokkur hundruð kennitölum hvor um sig og þeir fengu mikinn hluta byggingarmagnsins. Það er gegnsætt en það er ósanngjörn niðurstaða.