Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 11:17:18 (7361)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:17]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að verið er að staðfesta stækkunarferilinn í álverinu í Hvalfirði. Hvað sem mönnum fannst um það álver í upphafi þegar það var byggt var auðvitað fljótlega ljóst að vegna þróunar í áliðnaði yrði álverið að stækka og ná þeirri stærð að það væri örugglega samkeppnishæft í framtíðinni. Sá ferill er nú tryggður og ástæða til að fagna því. Sá ferill er greinilega líka ákaflega hagkvæmur fyrir efnahagslífið og atvinnulífið á því svæði sem áhrifin verða. Stækkanirnar í þeim áföngum sem þarna eru fyrirhugaðir og hafa reyndar verið fram að þessu eru með þeim hætti að það veldur engum stórkostlegum vanda í atvinnulífinu, hvorki á svæðinu eða landinu í heild. Ég verð að segja eins og er að að mínu mati er ekki um annað að ræða en fagna því hvernig að þessu hefur verið staðið og hvernig þetta hefur allt gengið fram.

Auðvitað þarf að gera nýja samninga og breyta um þessa hluti eins og hér er gert ráð fyrir við þau sveitarfélög sem þarna eiga hlut að máli. Ég sé ástæðu til þess í tengslum við umræðuna að draga athygli hv. alþingismanna að því að hér má sjá þá vitleysu sem menn hafa borið ábyrgð á í sölum Alþingis fram að þessu sem er fólgin í því að hér eru settar niður að tilhlutan ríkisvaldsins verksmiðjur og virkjanir úti um landið í einhverja litla sveitahreppi með fáum íbúum og skattlagning á mannvirkin kemur í hina litlu sveitarsjóði en það er ekki tekið tillit til atvinnusvæðanna sem um er að ræða. Nú eru að koma fram enn þá meiri tekjur, en hverjir fá þær? Að vísu er búið að taka ákvörðun um að sameina þessa fjóra litlu hreppi sem eru á svæðinu sunnan Skarðsheiðar en það er samt ekki nema milli 500 og 600 manna byggðarlag sem um er að ræða. Ef við skoðum hvernig þetta hefur komið niður fram að þessu hafa tveir af fjórum sveitahreppum fengið tekjurnar af mannvirkjunum. Í svari við fyrirspurn sem ég bar fram í vetur kemur fram að tekjur Hvalfjarðarstrandarhrepps eru að 38% til komnar vegna fasteignagjalda. Tekjur Skilmannahrepps, sem er hinn hreppurinn, eru að 57% til komnar vegna fasteignagjalda. En að meðaltali og fjölmörg sveitarfélög eiga við það að búa að fá 4%, 5% og 6% af tekjum sínum af fasteignagjöldum.

Ég tel að hér hafi illa tekist til hjá Alþingi. Þá er ég að tala um að fyrir allmörgum árum var til skattur sem hét landsútsvar þar sem tekið var á svona hlutum. Hætt var við hann en það var ekki tekið á málinu sem hefur komið í veg fyrir sameiningu sveitarfélaga vegna þess að á sumum fámennum stöðum hafa menn gulluppsprettu þó að nágrannarnir hafi verið að lepja dauðann úr skel allan tímann, eins og reyndin er með t.d. bæði Innri-Akraneshrepp og Leirár- og Melasveit. Á því litla svæði sem þar er um að ræða þar sem það tekur 20 mínútur að keyra milli enda á öllu svæðinu sem þessir fjórir hreppar taka yfir sem eru nú að sameinast. Þarna hefði þurft að taka á málum fyrir langalöngu og mér finnst að sameining sveitarfélaga sem ríkisstjórnin stendur fyrir núna hefði átt að vera markvissari og ákveðnari til að koma í veg fyrir að slíkir hlutir væru með þeim hætti sem er. Auðvitað byggist uppbygging verksmiðjanna ekki á vinnuafli litlu sveitarfélaganna í kring heldur á stærri stöðunum þangað sem öll þjónustan er sótt.

Við sjáum fram á enn eitt skipulagsslysið á svæðinu ef svona heldur áfram vegna þess að nú eru hinir fjórir hreppar að skipuleggja byggðina sína og ætla að byggja upp þéttbýli á jaðri Akraness og Innri-Akraneshrepps.

Ég taldi ástæðu til að nefna þetta vegna þess að ábyrgðin á þessu er auðvitað öll í sölum Alþingis. Hér hafa menn alið fáa með miklum fjármunum.