Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 14:07:12 (7395)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[14:07]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur í raun orðið lengri en þetta litla frumvarp gefur tilefni til, en ekkert nema gott um það að segja að hv. þingmenn hafi áhuga á að fjalla um álverið á Grundartanga sem er hið merkasta fyrirtæki sem hefur staðið sig vel og skapað mörg störf og er orðið nokkurs konar óskabarn þjóðarinnar, þó svo það hafi ekki allt gengið sérstaklega auðveldlega þegar áform voru uppi um að stofnsetja fyrirtækið eins hv. þm. Guðjón Guðmundsson rifjaði ágætlega upp, sem man vel þá daga og líka ég. Við skulum ekki orðlengja um það. Aðalatriðið er að fyrirtækið hefur staðið sig og er í mikilli uppbyggingu.

Ég get greint frá því að sá áfangi sem nú er í uppbyggingu frá 90 í 180 þús. tonn mun ljúka á næsta ári. Síðan er stækkun álversins upp í 220 þús. tonn og þeim áfanga mun ljúka að 2/3 árið 2006, en að 1/3 2007. Einnig er verið að tala um stækkun í 260 þús. tonn sem yrði fjórði áfangi og sá síðasti, sem ég tel rétt að tala um í dag. Á árinu 2008 til 2009 verður sá áfangi tilbúinn til framleiðslu.

Það kom líka fram fyrirspurn um það hver kostnaður væri við virkjanir vegna stækkunar úr 180 þús. tonnum í 260 þús. tonn. Ég held að það megi skjóta á að það geti verið 18–20 milljarðar kr.

Vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og ítrekað var af hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur varðandi þær tekjur sem sveitarfélögin hafa af fasteignagjöldum og hvort ég muni beita mér fyrir því að allt atvinnusvæðið fái tekjurnar, þá fer ég ekki með málefni sveitarfélaga, en allir þekkja að það er vilji hæstv. félagsmálaráðherra að það verði af sameiningu sveitarfélaga og tillögur uppi í þeim efnum sem íbúarnir taka afstöðu til samkvæmt lögum. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn hafa tekið þá afstöðu að þeir telji að þessi mál eigi að ákvarðast á hv. Alþingi en ekki af hálfu íbúa sveitarfélaganna, ég get spurt beint að því hvort það sé skoðun þeirra. En ég vil ekki fara dýpra í mál sem aðrir ráðherrar fara með.

Síðan eru það skattalögin sem ég fer náttúrlega ekki heldur með og hv. þingmenn þekkja allt saman held ég.

Minnst var á skipasmíðaiðnaðinn. Hv. þingmaður Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, kom inn á þau mál og svaraði því ágætlega hvernig skipasmíðastöðvarnar hafa verið að fá verkefni sem tengjast uppbyggingu í áliðnaði, sem er gríðarlega mikilvægt.

Ég vil hins vegar mótmæla því sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að stefna ríkisstjórnarinnar hafi á sínum tíma verið sú að stækka álverið á Grundartanga og fórna Þjórsárverunum í því skyni. Það stóð aldrei til. Þjórsárverin eru ofar í landinu en það lón sem þá var til umræðu hefði náð yfir.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um að það hafi tapast tækifæri og glatast vegna þeirrar þenslu sem er tengd uppbyggingu álvera. Hann færði náttúrlega engin rök fyrir máli sínu, heldur kastaði þessu bara fram. Ég ætla ekki að fullyrða um að það hafi ekki getað verið í einhverju tilfelli, en ég vil hins vegar halda því til haga að það hafa líka skapast gríðarlega mörg tækifæri tengd áliðnaðinum. Ég heimsótti m.a. í fyrradag myndarlegt hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi, TM Software, sem áður hét Tölvumyndir. Þar var mér greint frá því að fyrsta alvöruverkefnið sem það fyrirtæki fékk og gerði það að verkum að það náði að byggjast upp á þeim tíma var verkefni sem tengdist álverinu í Straumsvík. Þetta er því bara eitt dæmi um að uppbyggingin hefur skapað gríðarleg tækifæri fyrir aðrar greinar eins og t.d. hugbúnaðargeirann. Þess vegna verðum við að varast það að stilla hlutum þannig upp að það sé annaðhvort eða þegar við tölum um atvinnumál okkar Íslendinga, því sannleikurinn er sá að það er bæði og. Þetta styður hvert annað.

Ég hef ekki fleira um þetta að segja, nema það sem fram kom í lokin af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals varðandi það að málið fari til hv. iðnaðarnefndar. Mál sem varða samninga um stóriðju hafa verið hjá iðnaðarnefnd … (Gripið fram í.) Ég var að koma hlaupandi inn þegar hv. þingmaður talaði þannig að ég átta mig ekki alveg á, hann hefur sennilega lagt til að þetta færi til efnahags- og viðskiptanefndar. (Gripið fram í: … benti á það.) Bentir þú á það, já.

Það sem ég ætlaði að segja var að þau mál sem hafa verið til umfjöllunar og tengjast áliðnaðinum og samningum um uppbyggingu stóriðju hafa verið hjá iðnaðarnefnd fram til þessa. Ég held að ástæða sé til þess að þetta mál sé þar líka og fái umfjöllun í þeirri nefnd þó það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er í raun skattamál. Það felst ósköp lítið og pent skattamál í frumvarpinu.

Mér er líka kunnugt um að efnahags- og viðskiptanefnd hefur heilmörg verkefni þannig að ég held að það sé ekkert til þess að vera að sækjast sérstaklega eftir að fá frumvarpið, þó það sé einfalt í sniðum, og ég held mig við þá tillögu að málið fari til hv. iðnaðarnefndar.