Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 17:46:21 (7461)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:46]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka góðar óskir og vona að framtíðin uppfylli þær óskir sem ég fékk frá hv. þingmanni varðandi framtíð flokksins og eflingu hans.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að kvótasetning að þessu leyti eigi ekki við frekar en í svo mörgu öðru sem manni finnst ekki beinlínis markmið að stefna að, að uppfylla einhvern kvóta og halda sig við það. Ég lít svo á eins og ég sagði í upphafi máls míns þegar ég talaði um systkini mín og fjölskyldu að það þurfi vonandi ekki í framtíðinni þegar við erum komin í gegnum eðlilegar þjóðfélagsbreytingar neina sérstaka kvótastýringu til að ná slíkum markmiðum sem ég nefndi. Hins vegar hefur það iðulega verið nefnt í jafnréttisumræðunni að æskilegt væri að ná því hlutfalli að konur yrðu a.m.k. 40% í völdum nefndum, ráðum og stofnunum þjóðfélagsins, það hefur verið sett sem markmið.

Ég geri ráð fyrir að á þessari öld muni þetta breytast verulega og við munum sjá það þegar við erum kannski hætt hér störfum og horfum til þjóðfélagsins okkar á efri árum, sem ég vona auðvitað að verði ánægjuleg fyrir okkur öll, að breytingin gangi eftir og að konur standi algjörlega jafnfætis okkur körlum að fjölda til, þær gera það örugglega að því er varðar hæfileika og við þurfum ekki að stýra því.