Rannsóknarmiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 18:52:23 (7476)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Rannsóknarmiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

250. mál
[18:52]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til í framhaldi af fyrra andsvari mínu að beina spurningum til hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar, flutningsmanns, af því að hann er þingmaður Framsóknarflokksins. Við vitum öll að Framsóknarflokkurinn hefur til margra ára haft á sínum herðum embætti utanríkisráðuneytis og núverandi hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, er jú fyrrverandi utanríkisráðherra. Framsóknarflokkurinn hefur einnig haft á sínum höndum embætti landbúnaðrráðherra sem hefur haft Landgræðsluna á sínum snærum. Mér datt í hug hvort ekki væri reynandi að spyrja þingmanninn hvort hann hafi kannað það hjá flokksbræðum sínum, hæstv. landbúnaðarráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra, fyrrverandi utanríkisráðherra, hvort hægt væri að finna einhverja fleti á þessu máli hvað það varðar sem ég nefndi áðan, þ.e. að þetta starf gæti kannski á einhvern hátt flokkast undir þróunaraðstoð hjá okkur Íslendingum og við gætum jafnvel reynt að ná einhvers konar samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar í þessum málum, til að mynda Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðrar stofnanir innan þeirra vébanda. Ég sæki svo sem í tóman kofann hjá sjálfum mér en það má vel vera að hv. þingmaður geti kannski upplýst okkur eitthvað um þetta.