Reiðþjálfun fyrir fötluð börn

Miðvikudaginn 20. apríl 2005, kl. 14:49:17 (7678)


131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Reiðþjálfun fyrir fötluð börn.

757. mál
[14:49]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra og þátttöku þingmanna í umræðunni. Það er augljóst af svörum hæstv. ráðherra að hann hefur góðan skilning á þessu máli. Ég hef jafnframt skilning á því að það þurfi ákveðinn tíma til þess að skoða þetta innan ráðuneytisins.

Ástæða þess að ég vek athygli á þessari meðferð og möguleikum hennar er að ég hef átt þess kost að fylgjast með jákvæðum áhrifum slíkrar meðferðar á litla stúlku sem er bæði líkamlega og andlega fötluð.

Stjórnvöld hafa á síðustu árum lagt fram mikið fjármagn til þess að bæta stöðu og veg íslenska hestsins jafnt innan lands sem utan. Stjórnvöld hafa jafnframt dregið fram þá ágætu eiginleika hestsins sem nýtast í þágu fatlaðra eins og ég nefndi í ræðu minni áðan. Hins vegar hefur þessum sérstaka þætti varðandi eiginleika íslenska hestsins ekki verið fylgt eftir með neinum hætti hér á landi svo kunnugt sé. Því væri áhugavert að leggja í tilraunaverkefni til þess að sannreyna þetta notagildi íslenska hestsins í þágu fatlaðra barna með sérstökum fjárstuðningi. Það mætti t.d. gera með greiðsluþátttöku í meðferð sjúkraþjálfara í reiðþjálfun fatlaðra barna við sérstakar aðstæður eins og ég hef bent á að nágrannar okkar á Norðurlöndum gera með góðum árangri.

En fyrst og fremst bið ég um skilning á þessu málefni og ég tel mig hafa heyrt í máli hæstv. ráðherra að hann sé fyrir hendi og vonast til þess að niðurstaðan við því erindi sem liggur núna fyrir í ráðuneytinu verði jákvæð.

Jafnframt tel ég ástæðu til þess að vekja athygli umboðsmanns íslenska hestsins á þessu máli og jafnframt landbúnaðarráðherra sem hefur nú þótt nokkuð stórtækur í að styðja við íslenska hestinn. Þarna er vettvangur sem hann gæti þá jafnframt beitt sér í og útvíkkað svið sitt.