Þjónustuskyldur í eldsneytisafgreiðslu

Miðvikudaginn 20. apríl 2005, kl. 16:00:09 (7708)


131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Þjónustuskyldur í eldsneytisafgreiðslu.

773. mál
[16:00]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um að þetta sé sett fram af jákvæðni og með það í huga af hv. þingmanni að bæta þjónustuna við landsmenn. Auðvitað vildum við öll gera það. En í þessu tilfelli verðum við að hafa það í huga að ef við setjum þær kvaðir á fyrirtækin að standa undir lágmarksþjónustu kemur það fram í verðinu. Það er viðkvæmi þátturinn í málinu. Ég geri mér alveg grein fyrir því hvernig ástandið er og hvernig breytingin hefur verið á síðustu árum hvað það varðar að nú eru færri afgreiðslustaðir en áður og margir þeirra bjóða ekki upp á þjónustu í raun heldur er þar um sjálfvirka afgreiðslu að ræða.

Það atriði sem mundi skipta miklu máli, fyrst að hér var talað um ferðamenn, er að upplýsingar liggi fyrir á þessum stöðum um hvar næsta afgreiðsla sé þannig að ferðamann, sem jafnvel geta verið þingmenn, lendi ekki í því að verða alveg bensínlausir. Mér finnst slíkar upplýsingar vera mjög af skornum skammti.

Það sem ég vildi segja hérna var fyrst og fremst það að við getum ekki sett kvaðir á þessi fyrirtæki öðruvísi en að það komi fram í verðinu. Ég tel ekki að hér sé um neitt stórkostlegt vandamál að ræða. Þó að hv. þingmaður komi með þetta mál inn í þingið er þetta ekki stórkostlegt vandamál að mínu mati, ekki þeir þættir sem hann spurði um.