Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands

Þriðjudaginn 26. apríl 2005, kl. 13:52:30 (7750)


131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:52]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Hv. málshefjandi spurði mig ekki um eitt eða neitt. Hann fullyrti um ákveðinn hlut og síðan krafðist hann þess að forseti sæi til þess að frumvörp yrðu rædd með tilteknum hætti. Síðan hafði hann í hótunum um að stöðva annars allan málatilbúnað á þinginu eins og menn heyrðu. Hann spurði mig ekki um neitt sérstakt.

Ég kannast ekki við að hafa gefið nein loforð hér sem ég hafi svikið. Ég bið hv. þingmann að koma þá með þau og benda á þau ef hann vill halda því fram. Það hef ég hvergi gert.

Í annan stað vil ég nefna að á vormánuðum, í mars-, aprílmánuði, við fjárlagavinnu var lagt til af hálfu utanríkisráðuneytisins á þeim tíma að sú skipan skyldi verða á, sem varð, að fjármunir til mannréttindamála yrðu ákveðnir með sérstökum hætti frá ráðuneytinu en yrði ekki sjálfkrafa fjárveiting til tiltekinnar stofnunar. Ef menn taka tímaröðina í þeim efnum er það löngu fyrir þann tíma sem dylgjur nokkurra hv. þingmanna ganga út á. Tímaröðin er öfug þannig að dylgjurnar falla um sjálfar sig.