Skattskylda orkufyrirtækja

Þriðjudaginn 26. apríl 2005, kl. 21:56:38 (7808)


131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:56]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga sem mun beinlínis hafa þær afleiðingar að auknar álögur leggist á fólkið í landinu. Jafnframt er mjög líklegt að þær álögur komi misjafnlega niður og komi verst niður á köldustu svæðum landsins, þeim svæðum sem oft hafa verið nefnd köld svæði, þar sem ekki finnst jarðvarmi, sem er algengasti orkugjafinn til húshitunar og er í langflestum tilfellum verulega til hagræðis fyrir þá íbúa sem hans fá notið. Þetta er þekkt staðreynd á Íslandi.

Ég hefði einnig haldið, virðulegi forseti, að það væri þekkt að ekki er með auðveldum hætti hægt að koma á beinni samkeppni í sölu á heitu vatni til húshitunar. Manni sýnist a.m.k. sem það sé mun erfiðara en í þeirri tilraun sem nú er verið að gera með því að koma á samkeppni á raforkumarkaðnum. Reyndin er sú að niðurstaðan af þeim frumvörpum sem hér hafa verið keyrð í gegn, til breytinga á raforkulögum, er að raforkuverð hefur hækkað víða á landinu og hækkað mjög misjafnlega eftir svæðum. Orkukaup einstaklinga í raforku eru verðlögð með ýmsum hætti. Þau eru m.a. dýrari fyrir íbúa þar sem eru færri en 200 íbúar í sveitarfélagi.

Ég verð að segja eins og er, hæstv. forseti, að sú niðurstaða sem fram kemur í athugasemdunum sem ég ætla að leyfa mér að vitna í, með leyfi forseta, vekur margar spurningar sem rétt er að ræða áður en maður snýr sér að öðru í þessu frumvarpi. Í athugasemdum við lagafrumvarp þetta segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, sem fela í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Frumvarpið er samið af starfshópi sem fjármálaráðherra skipaði 11. desember 2000 um skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði í takt við almenn samkeppnissjónarmið.“

Síðan segir:

„Það var niðurstaða starfshópsins“ — eftir fimm ára starf — „að rökréttast væri að skoða starfsemi orkufyrirtækja heildstætt en ekki einungis raforkustarfsemina, enda ýmsum vandkvæðum bundið í skattalegu tilliti, vegna þess hversu blandaður rekstur orkufyrirtækjanna er, að skilja á milli kostnaðar vegna sölu á raforku annars vegar og heitu vatni hins vegar. Jafnframt taldi starfshópurinn nauðsynlegt að orkugeirinn sem heild byggi við sambærileg skattaleg skilyrði, ekki síst út frá almennum samkeppnissjónarmiðum.“

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg nóg fyrir hvern venjulegan Íslending að lesa eingöngu þetta. Hér er verið að segja að menn fari af stað í þá vegferð sem við erum hér að ræða, um skattlagningu og skattskyldu orkufyrirtækja, leggi af stað með það fyrir augum að bæta þessu inn á raforkufyrirtækin í kjölfar þeirra misheppnuðu aðgerða, vil ég segja, sem hæstv. iðnaðarráðherra stóð fyrir og við höfum rætt nokkrum sinnum í sölum Alþingis. Menn komast þá að þeirri niðurstöðu að af því að orkufyrirtækin starfi á fleiri sviðum en bara við að selja raforku skuli fara í skattlagningu á hitaveitunum líka. Ætli næst verði þá ekki farið í skattlagningu á vatnsveitunum sem sum fyrirtæki reka einnig? Hvernig á að meta hagkvæmni þess þegar fyrirtæki eins og Hitaveita Reykjavíkur getur lagt í sama skurðinn hitaveitulögn og vatnsveitulögn svo að eitthvert öfgadæmi sé tekið þegar verið er að bera saman fyrirtæki sem eru í rekstri? Sums staðar er bara um raforkufyrirtæki að ræða og á sumum svæðum landsins, einkanlega hinum köldu, er eingöngu verið að kaupa raforku til húshitunar.

Bara þessi aðstöðumunur landsmanna gerir það að verkum að þeir greiða mjög mismunandi verð fyrir og hafa mjög mismunandi kostnað af því að kynda heimili sín. Það er mjög mismunandi eftir einstökum landsvæðum hvaða hlutfall launa fólks fer í það að kynda húsnæði sitt.

Niðurstaða þessa starfshóps var að það væri sennilega erfitt að skattleggja bara raforkufyrirtækin ef það ætti að fara þessa leið. Af því að þau væru í blönduðum rekstri skyldi bara skattleggja allt. Sú varð niðurstaðan.

Þessi ríkisstjórn skattalækkunarstefnunnar sem hefur verið að hæla sér svo mikið af því að lækka skatta hér á landi, sem eins og við vitum hefur mistekist svo hrapallega að það hefur eingöngu komið hátekjufólkinu til góða og lágtekjufólkið setið eftir, er núna á sérstakri vegferð í því að hækka skatta. Hún fer lengra í því verki sínu en lagt var af stað með í upphafi. Þá átti vegferðin eingöngu að ná til raforkufyrirtækja en nú hefur hún ákveðið að skattleggja alla orku svo að allir fái nú að borga viðbótarskattahækkun.

Það er von að hv. þm. Pétur Blöndal gleðjist yfir þessu. Hann var ofboðslega glaður og velti sér um í dauðum laufblöðum þegar við vorum í umræðunni um lækkun skatta á haustþinginu þó að honum væri margsýnt fram á hversu hörmulega misjafnlega það kæmi út eftir því hve háar tekjur fólk hafði. En látum það liggja á milli hluta.

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að það hefði náttúrlega verið langbesta niðurstaðan ef menn hefðu ákveðið í efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallaði um þetta mál að réttast væri að setja það bara í salt, geyma það.

Verð ég ekki að segja að það sé alveg dásamleg viska sem kemur út úr þessum starfshópi fjármálaráðuneytisins? Hann kemst að þeirri niðurstöðu eftir nærri fimm ára starf að af því að sennilega takist ekki að skattleggja bara raforkufyrirtækin skuli skattleggja alla sem eru með einhvers konar starfsemi að því er snýr að þessari almannaþjónustu varðandi hitaorku, hvernig svo sem menn ætla að fara að því að sýna fram á forsendurnar sem gefnar voru í upphafi starfsins í þessum starfshópi. Í kjölfar nýrra raforkulaga sem átti að efla samkeppni átti að sýna hvernig þeirri samkeppni yrði komið við í hitaveitulögnunum. Ég er ekki alveg búinn að átta mig á því, hæstv. forseti. Það kann að vera að sú samkeppni geti orðið virk í raforkugeiranum þó að ég dragi það í efa. Það er þó a.m.k. hugsað þannig að í framtíðinni geti almenningur samið við hvern sem er sem selur rafmagn. Ég sé þó ekki hvernig það getur náð til hitaveitufyrirtækjanna.

Mér finnst, virðulegi forseti, að í þessu máli sé enn frekar verið að skipta þessari þjóð upp í tvo hópa. Annar hópurinn býr á köldu svæðunum, kaupir dýrustu orkuna til að halda húsum sínum heitum og var að fá á sig verulegar hækkanir í kjölfar lagasetningar iðnaðarráðherra. Þó var upplýst í sölum Alþingis að sú lagasetning ylli sáralítilli, ef nokkurri, hækkun á raforkuverði. Niðurstaðan hefur reynst allt önnur.

Ég veit ekki hvernig er með stjórnarþingmenn en ég veit að við í Frjálslynda flokknum fáum annað slagið tölvupósta. Síðast í dag, 26. apríl, fékk ég einn sendan. Í þessum póstum er yfirleitt verið að segja okkur hvernig hækkun á raforkuverði kemur út á landsbyggðinni. Þessi tölvupóstur sem ég er hér með frá deginum í dag er frá Grundarfirði. Þar segir:

„Ég bý í Grundarfirði. Samkvæmt því hefur rafmagnið hjá mér hækkað um 5.000 kr. á mánuði, eða um 25%. Á sama tíma hafa laun mín sem sjómanns lækkað um svipaða prósentu. Þetta finnst mér ekki vera óveruleg hækkun eins og stjórnarþingmenn hafa haldið fram.“

Þetta segir í þessu bréfi, með leyfi forseta.

Þetta er bara einn af fjölmörgum pappírum sem við fáum í stjórnarandstöðunni en ég veit ekki hvernig stjórnarþingmönnum vegnar í því að fá svona upplýsingar. Þetta er ekki versta dæmið sem við höfum fengið í hendur. Til eru dæmi um meiri hækkanir en hér var sagt frá. Þetta er afleiðingin af raforkulögunum, afleiðingin af því sem þar var keyrt í gegn. Ég minni á það að við hv. þm. Steingrímur Sigfússon lögðum fram breytingartillögu á haustmánuðum við það mál og lögðum til að þau lög tækju ekki gildi fyrr en eftir ár þannig að menn hefðu tíma til að skoða hvaða afleiðingar þau hefðu. Þá þyrftu menn ekki að vera að fást vandamál sem þegar væru skollin á fólkinu með tilheyrandi kostnaði, heldur gætu menn reiknað sig inn í það hvað þau þýddu. Þá hefðum við getað náð að gera einhverjar ráðstafanir úr því að menn lögðu svo mikið kapp á að keyra fram þau lög að það var ekki nokkur leið að halda í sér hlandinu, virðulegur forseti, verð ég að segja til þess að láta það ekki bitna á fólkinu í landinu eins og nú hefur skeð.

Í kjölfarið erum við svo að ræða skattálögur á orkufyrirtækin. Hvar skyldi það enda ef það gengi fram? Það er ekki að sjá annað en að hv. stjórnarliðar ætli að keyra þetta mál fram með meirihlutavilja sínum á Alþingi. Miðað við þær umsagnir sem okkur hafa borist og miðað við það sem maður getur sjálfur lagt niður fyrir sér varðandi það þegar aukinn kostnaður er lagður á fyrirtæki í orkugeiranum mun það þýða að þau setja hann að öllu jöfnu út í verðlagið. Það verður sem sagt neytandinn sem borgar hærra verð, alveg nákvæmlega eins og gerðist með raforkulögunum, alveg nákvæmlega eins og mun halda áfram að gerast í raforkulögunum þar sem krafan um arðsemi er inni.

Krafan um aukna arðsemi mun leiða til þess að orkufyrirtækin þurfa að ná inn meiri hagnaði á komandi árum. Ef skattlagning orkufyrirtækjanna bætist svo við mun það þýða enn þá dýrari orku til neytendanna, þeirra sem kaupa hitaorkuna. Það verður dýrara að kynda húsin og dýrast þar sem það er dýrast fyrir. Það sýnist mér vera, hæstv. forseti, vegna þess að krafan í frumvarpinu er að orkufyrirtækin skuli ná inn hagnaði og greiða arð. Þau greiða væntanlega ekki arð nema þau hafi álögurnar þannig á orkuna að það sé hagnaður í fyrirtækjunum. Þau geta ekki staðið undir því. Síðan kemur krafan um að borga tekjuskatt til viðbótar sem mér sýnist að allt að einu muni enn hækka álögur á almenning.

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti: Er ykkur stjórnarliðum ekki sjálfrátt? Þið sjáist engan veginn fyrir í þessum verkum. Trúa menn ekki svona pappírum? Trúa menn ekki orkureikningum eins og þeim sem ég er með í höndunum? Ætla stjórnarliðar að halda því fram að þeir pappírar sem þegnar þessa lands eru að senda okkur þingmönnum séu blekking? Þessi orkureikningur, hæstv. forseti, er frá Rafmagnsveitum ríkisins. Hann er ekki einsdæmi eins og ég gat um. Það er algjörlega ljóst að mínu viti að gangi þetta eftir, verði þessi lagasetning gerð núna á Alþingi um skattskyldu orkufyrirtækja, mun það aðeins þýða það að orkuverð hækkar enn frekar. Er ekki nóg komið?

Þar sem við erum farin að reikna með því í stjórnarandstöðunni að stjórnarliðum sé alls ekki sjálfrátt í þessum málum og sjáist ekki fyrir í keppni sinni við að finna upp nýjar álögur á almenning og nýja skattskyldu sem almenningur borgar höfum við í Frjálslynda flokknum, þ.e. okkar fulltrúi sem er áheyrnarfulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd, lagt fram tillögu um það að ef stjórnarliðar leggja svona ofurkapp á að samþykkja þessi lög verði virkni laganna a.m.k. frestað. Við leggjum til að lögin komi alls ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 2012, þá með skattlagningu á árinu 2013 vegna tekna á árinu 2012, ef af yrði.

Við leggjum einnig til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við þetta frumvarp um það að á árinu 2009 verði skipuð sérstök nefnd til að meta áhrif skattskyldu samkvæmt þessum lögum, það verði sem sagt lagt mat á það samkvæmt tillögu okkar áður en lögin koma til framkvæmda hvað þetta þýðir í reynd eftir landsvæðum, eftir því hvort um er að ræða hitaveitusvæði eða raforkusvæði þar sem fólk býr eingöngu við raforku til að halda hita á húsum sínum, og þjónustusvæðum þeirra fyrirtækja sem þá verða að þjónusta landsmenn að þessu leyti.

Það eru boðaðar breytingar af hendi stjórnvalda á orkumarkaðnum. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur látið hafa það eftir sér að rétt væri að stefna að sameiningu orkufyrirtækja hér í landi og sameina Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik í eitt fyrirtæki, þannig að fyrirhugaðar eru verulegar breytingar af hendi stjórnvalda.

Við skulum vona, hæstv. forseti, að þegar næst verður kosið til Alþingis í landinu falli núverandi ríkisstjórn svo landsmenn þurfi ekki að eiga von á því að menn ætli að keyra slík mál fram án nánari skoðunar. Breytingartillaga okkar gengur auðvitað fyrst og fremst út á það að lögin komi ekki til framkvæmda og menn taki sér tíma til að sjá hvernig málin munu þróast á næstu árum, hvort okkur takist m.a. í hv. Alþingi að koma með lagfæringar á raforkulögunum þannig að þar verði meiri jöfnuður en hefur fylgt þeirri lagasetningu og það takist með annaðhvort niðurgreiðslum eða breytingum á umhverfinu að gera það að verkum að íbúar landsins fái ekki á sig svo geysilega mismunandi hækkanir á orkukostnaði heimilanna eins og reyndin er í kjölfar raforkulaganna.

Ef núverandi ríkisstjórn fer í sameiningu orkufyrirtækjanna á næstu tveimur árum, sem sagt á þessu kjörtímabili, held ég að það væri líka gott að við hinkruðum með allar breytingar varðandi skattskyldu orkufyrirtækja þangað til það skref væri stigið, sem ég vona að verði ekki. En miðað við verk ríkisstjórnarinnar er ekki von á því að menn snúi af þeirri braut sem mörkuð hefur verið að þessu leyti hvað sem það kostar neytendur í landinu. Það er ekki verið að hugsa um það. Það er hið skrýtna í málinu. Það er ekki verið að hugsa um hag fólksins almennt í landinu við breytingarnar. Það virðist eingöngu vera farið út í þetta á þeim forsendum að ná skattlagningu á orkufyrirtækin almennt og eins og ég gat um í upphafi máls míns komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að skattleggja öll orkufyrirtækin af því að það væri sérstaklega erfitt að skattleggja bara raforkufyrirtækin. Þess vegna var hitaveitufyrirtækjunum bætt við og sennilega bæta menn vatnsveitunum við líka innan tíðar og skyldi nú ekki vera að ég væri sannspár í því að menn ætluðu að fara þangað líka.

Að öllu samanlögðu, hæstv. forseti, er niðurstaða okkar í Frjálslynda flokknum sú að best væri að láta málið sofna og það færi aldrei lengra en í 2. umr. En af því að því er ekki að treysta að vit ráði för hjá stjórnarliðum komum við með þá breytingartillögu að lögin taki ekki gildi fyrr en að loknum verulegum árafjölda og áður en þau taki gildi verði málið skoðað á nýjan leik og metið hvaða áhrif mundu verða af slíkri breytingu miðað við starfsumhverfi orkufyrirtækja í landinu þá og orkuverð til neytenda.

Niðurstaða mín, hæstv. forseti, af málinu er í stuttu máli sú að mér sýnist enn á ný verið að auka mismunun í landinu og að aðgerðin muni bitna harðast á þeim svæðum þar sem orkuverðið er hæst, að óbreyttum lögum um að öll orkufyrirtæki skuli ná arði miðað við raforkulögin mun krafan um skattgreiðslur einnig bætast þar við. Þó svo gert sé ráð fyrir að sum fyrirtæki séu í það miklum fjárfestingum og hafi það miklar afskriftir að þau muni ekki fara að greiða skatta á næstunni er það ekki algilt og kemur fram bæði í umsögn Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrir liggur í umsögnum að fyrirtæki telja að kostnaðurinn muni fara beint út í verðlagið. Fyrirtækin ráða því hvernig þau setja fram kostnaðaráætlanir sínar um orkuverðið og sporin frá síðasta hausti og dæmið á orkureikningnum sem ég var að veifa áðan, sem er bara einn af mörgum sem við höfum fengið senda, sýnir að full ástæða er til að fara varlega. Þess vegna skulu það vera lokaorð mín, hæstv. forseti, að mælast til þess að fulltrúar ríkisstjórnarinnar í hv. Alþingi skoði hug sinn vandlega og athugi hvort ekki sé eðlilegt að flýta sér hægt. Flas er sjaldan til fagnaðar og ég held að reynslan af setningu raforkulaga og þær afleiðingar sem hafa fylgt því víða á landinu, einkum á köldu svæðunum og dýrustu orkusvæðunum, séu dæmi um að við fórum nokkru offari við setningu raforkulaganna.

Það er auðvitað hægt að halda því fram að mönnum gefist tími til að lagfæra eitthvað í framtíðinni og vonandi gera menn það. En ég á eftir að sjá að þeir sem þegar hafa fengið orkureikninga fái endurgreiðslu og lagfæringu á stöðu sinni. Staðan hefur enn ekki verið lagfærð hjá fólkinu sem hefur fengið tugprósentna hækkun þó svo það sé látið í veðri vaka annað slagið í þessum ræðustól.