Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Föstudaginn 29. apríl 2005, kl. 14:46:36 (7871)


131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:46]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að andsvör megi einnig nota til uppbyggilegra ummæla og umræðu á hinu háa Alþingi og vona að ég hafi ekki rangt fyrir mér í því. Það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í sínu svari undirbyggir það sem reynt hefur verið að benda á í þessari umræðu um nauðsyn ekki bara þróunarsamvinnunnar heldur þess að verkefnavalið sé gott og framkvæmdaáætlunin liggi fyrir. Það eru mörg verkefni, mjög mörg verkefni.

Baráttan gegn útbreiðslu alnæmis er eitt af því mikilvægasta sem við getum unnið að og það er án nokkurs vafa það verkefni sem, held ég, leggur ríkustu skyldur á herðar alþjóðasamfélagsins nú um stundir því þessi faraldur eirir engum og hann kemur verst niður á þeim sem minnst mega sín eins og tölurnar um munaðarlaus börn í sunnanverðri Afríku segja okkur. Ég vil hvetja hv. þingmenn — við höfum held ég öll fengið skýrslu frá UNICEF sem ber heitið Barnæskunni ógnað eða Childhood under threat — að kynna sér umfjöllunina um alnæmi og áhrif þess á barnæsku afrískra barna og taka svo vandaða afstöðu til þess hvaða verkefni við eigum að styðja helst í þróunarsamvinnu við önnur lönd.