Lífeyrissjóður bænda

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 14:02:02 (7934)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[14:02]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var dálítið skrýtin ræða hjá hv. þingmanni. — Hv. þingmaður, ég er í andsvari.

Fyrst vil ég geta þess að upphaf makalífeyris í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, sem hv. þingmanni var tíðrætt um, er helmingur af áunnum ellilífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga eins og hjá öllum opinberum starfsmönnum í B-deild LSR, ekki bara hjúkrunarfræðingum, auk 20%. Ef maðurinn er með lítinn áunninn rétt, búinn að starfa stutt, kannski um tíu ár, þá er þetta samtals 30%. Hv. þingmaður ætti að kynna sér þetta nákvæmlega.

Til viðbótar fá menn að sjálfsögðu frá Tryggingastofnun. Á heimasíðu Tryggingastofnunar segir að tekjutryggingin byrji að skerðast við 48 þús. kr. á mánuði í tekjur. Menn geta því haft 48 þús. kr. úr lífeyrissjóði, yfirleitt öllum lífeyrissjóðum og Lífeyrissjóði bænda án þess að skerðast neitt. Þeir fá það til viðbótar við það sem Tryggingastofnun greiðir.

Auk þess sem í lögum um Lífeyrissjóð bænda segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Sjóðfélagar skulu vera allir bændur og makar þeirra sem starfa að búrekstri.“

Makarnir eru allir tryggðir líka ef þeir starfa að búrekstri, sem yfirleitt er. Þeir eru því allir tryggðir til ellilífeyris og fá makalífeyri að auki.